Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hittir bæði Dag og Eyþór í dag

28.05.2018 - 19:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti flokksins í Reykjavík, er í lykilstöðu í viðræðum um myndun meirihluta í borginni. Fréttastofa náði tali af Þórdísi Lóu á sjötta tímanum, en nokkur leynd hefur verið yfir fundum hennar í dag.

Þórdís segist ekki vera búin að ákveða hvort hún ætli í meirihluta með Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins, eða Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar.

„Það hefur bara ekki komið í ljós ennþá. Ég er í miðju ferli, hver er á undan og hver er á eftir skiptir ekki máli. En þú munt hitta þá báða í dag? Já, ég held það bara, að það klárist í dag.“

Þórdís segir að ekki sé komin mynd á hvenær, og þá hvaða, flokkar fari í formlegar viðræður. Hún á þó von á að það skýrist fljótlega. En eru einhver tilboð á borðinu?

„Nei ég er alveg laus við það að hafa fengið tilboð. Hvað á það að þýða að ég hafi ekki fengið tilboð?“

Orðrómur hefur verið uppi um að borgarstjórnarflokkur Viðreisnar ætli að fara fram á að ráðinn verði utanaðkomandi borgarstjóri. Þórdís segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um það. 

„Nei, við höfum bara ekki gert neinar kröfur um eitt né neitt, af því að við erum ekki byrjuð að tala saman að neinu leyti. Við munum alltaf láta málefnin ráða leiðinni. Það eru málefnin sem skipta máli. Þetta voru kosningar sem kölluðu á breytingar og ég held að það sé allt opið þegar það kemur að því,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.