Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hitabeltisstormur hamast á Kyrrahafsparadís

28.12.2019 - 05:47
Hamfarir · Fiji · Eyjaálfa · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: NASA
Nærri 2.000 manns hafa leitað skjóls í neyðarskýlum og eins manns er saknað í hitabeltisstormi sem hamast á Fijieyjum á sunnanverðu Kyrrahafi. Stormurinn, sem kallast Sarai, hefur þegar valdið miklum skemmdum á mannvirkjum og uppskeru, tré hafa kubbast í sundur og rifnað upp með rótum og rafmagn farið af stórum svæðum. Sterkustu hviður fara vel yfir 40 metra á sekúndu og úrhellisrigningin sem fylgir storminum veldur töluverðum flóðum.

Þúsundir ferðalanga komast hvorki til né frá eyjunum þar sem allt flug liggur niðri á meðan stormurinn gengur yfir. Stjórnvöld á Fiji gáfu út viðvörun vegna veðursins, þar sem fram kom að veðurhæð yrði mikil og að búast mætti við sjóflóðum við ströndina.

Almannavarnir upplýstu í morgunsárið að 1.970 manns hefðu leitað skjóls í neyðarskýlum hins opinbera, en engar fregnir hefðu borist af manntjóni eða slysum á fólki. Í frétt AFP segir að engu að síður sé óttast um afdrif eins manns sem hvarf í beljandi straumvatn þegar hann reyndi að fara þar yfir. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir