Nærri 2.000 manns hafa leitað skjóls í neyðarskýlum og eins manns er saknað í hitabeltisstormi sem hamast á Fijieyjum á sunnanverðu Kyrrahafi. Stormurinn, sem kallast Sarai, hefur þegar valdið miklum skemmdum á mannvirkjum og uppskeru, tré hafa kubbast í sundur og rifnað upp með rótum og rafmagn farið af stórum svæðum. Sterkustu hviður fara vel yfir 40 metra á sekúndu og úrhellisrigningin sem fylgir storminum veldur töluverðum flóðum.