Hitabeltisnætur í Noregi

26.07.2019 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: Guðrún Elsa Giljan Kristjánsd - Aðsend mynd
Yfir 30 stiga hiti er nú í Noregi og sums staðar nálgast hitinn 33,5 gráður. Hitabylgja hefur geisað í Evrópu síðustu daga. Heitast er í Belgíu, Hollandi, Ítalíu og Noregi. Í Kongsberg vestan við Osló heldur barnafólk sig við vötn til að kæla sig, að sögn Guðrúnar Elsu Giljan Kristjánsdóttur, íbúa í Kongsberg. Hitinn var kominn upp í rúmlega 28 gráður laust fyrir hádegi og á að aukast þegar líða fer á daginn.

Guðrún Elsa og fjölskylda eru nýkomin frá Osló þar sem fólk safnaðist saman í görðum, við læki, vötn og gosbrunna til að kæla sig. Hún segir að hitinn hafi farið að hækka í Noregi á þriðjudag og hafi farið vaxandi síðan. Þá sé gróður orðinn mjög þurr og þörf á rigningu. Varað hafi verið við eldhættu í skógum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðrún Elsa Giljan Kristjánsd - Aðsend mynd
Guðrún Elsa lengst til hægri og fjölskylda

„Við erum búin að vera með hitabeltisnætur síðustu tvær nætur. Það þýðir að hitastigið fer ekki niður fyrir 20 gráður alla nóttina. Það lítur út fyrir að það verði þannig í nótt líka,“ segir Guðrún Elsa. Hún segir að vegna hitans hafi sala á ís og drykkjum aukist gríðarlega í Noregi. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi