Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hinn upprunalegi Boba Fett til Íslands

Mynd: EPA / EPA

Hinn upprunalegi Boba Fett til Íslands

27.04.2018 - 14:51

Höfundar

Leikarinn Jeremy Bulloch sem lék hinn ofursvala Boba Fett í upprunalega Star Wars-þríleiknum er væntanlegur til Íslands í haust og kemur fram á ráðstefnunni Miðgarði (Midgard).

Midgard verður haldin 15. og 16. september í Laugardalshöll og er í ætt við svokallaðar ComiCon hátíðir sem þekkjast víð erlendis. Þar er áhugamálum „nörda“ fagnað; svo sem hlutverkaspilum, teiknimyndasögum, fantasíuheimum, vísindaskáldskap og tölvuleikjum. Sigríður Ösp Sigurðardóttir, sem er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, segir að ráðstefnan verði opin öllum aldurshópum og fleiri úr Star Wars heimnum komi fram. „Gæinn sem hannaði hjálminn hans Darth Vader, og gæinn sem lék Boba Fett úr fyrstu Star Wars myndunum verða þarna að árita hluti og taka í höndina á fólki.“ Þeir muni einnig ásamt Nick Jameson – sem býr á Íslandi og hefur talað inn á Star Wars teiknimyndir – taka þátt í pallborðsumræðum um Stjörnustríðsheiminn.

Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni
Sigríður Ösp er virk í íslenska „cosplay“-samfélaginu.

Á viðburðum sem þessum er mikið um að fólk klæðist eins og sínar uppáhaldspersónur, hvort sem þær kunna að koma úr japönskum teiknimyndum eða Hringadróttinssögu, leiki eins konar hlutverkaleiki sín á milli, í menningarafkima sem er kallaður „cosplay“. „Við erum að halda tvær cosplay búningakeppnir, önnur þeirra verður undankeppni fyrir Nordic cosplay championship sem er haldin í Svíþjóð á hverju ári, en hin er opin fyrir alla.“ segir Sigríður Ösp.

Rætt var við Sigríði Ösp Sigurðardóttur í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Rogue One: Star Wars saga sem gengur upp

Mynd með færslu
Menningarefni

Truenorth reynir að fá lokasenu í Star Wars

Mynd með færslu
Menningarefni

Íslandstökur í Star Wars lentu á klippigólfinu

Mynd með færslu
Menningarefni

Miðasala á Star Wars nemur 88 milljónum