Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hinn Rússinn sagður herlæknir

08.10.2018 - 21:28
epa06998302 An undated combo handout photo made available by the British London Metropolitan Police (MPS) showing Alexander Petrov (R) and Ruslan Boshirov (L). The MPS reported on 05 September 2018 that they have charged two suspects ? both Russian
Anatoly Chepiqa er til vinstri á myndinni. Mynd: EPA - RÚV
Hinn Rússinn, sem er grunaður um að hafa reynt að myrða Sergei Skripal og dóttur hans í breska bænum Salisbury í vor, er herlæknir hjá leyniþjónustu rússneska hersins og heitir réttu nafni Alexander Petrov. Þetta er niðurstaða rannsóknar hjá hópi rannsóknarblaðamanna sem hafa birt niðurstöður sínar á vefsíðunni Bellingcat.

Í lok síðasta mánaðar taldi hópurinn sig hafa fundið út að samverkamaður mannsins væri Anatoly Chepiqa, ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins. Sá hefði hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín og meðal annars tekið við orðu frá Pútín Rússlandsforseta.

Fram kemur á vef BBC að samkvæmt rannsókn Bellingcat-hópsins hafi leyniþjónusta rússneska hersins ráðið Petrov til sín þegar hann var á lokametrum læknanámsins. Hann hafi meðal annars farið nokkrum sinnum til Úkraínu, til að mynda þegar hörð átök stóðu yfir vegna innlimunar Krím-skaga fyrir fimm árum. Hópnum hafi tekist að bera kennsl á hann með frásögnum vitna og afriti af réttu vegabréfi hans. Frekari upplýsingar um herlækninn verða birtar á morgun, þriðjudag. 

Mennirnir tveir birtust um miðjan síðasta mánuð nokkuð óvænt í sjónvarpsviðtali við rússneska sjónvarpsstöð. Þar sögðust þeir hafa verið ferðamenn og þeir væru ekki njósnarar heldur ynnu í líkamsræktargeiranum. Þeir hefðu ferðast til Salisbury til að skoða dómkirkju borgarinnar.

Daginn fyrir sjónvarpsviðtalið hafði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýst því yfir að mennirnir væru engir njósnarar heldur almennir borgarar. Hann ætti von á því að þeir myndu segja sína sögu áður en langt um liði. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV