Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hin þriðja Róm fallin

11.12.2018 - 14:22
Mynd: AP / AP
Á sama tíma og spenna vex stöðugt milli stjórnvalda í Moskvu og Kænugarði hefur orðið klofningur milli réttrúnaðarkirkna Rússlands og Úkraínu. Bartólómeus fyrsti patríarki í Konstantinópel staðfesti um mánaðamótin fyrri ákvörðun frá því í haust um sjálfstæði úkraínsku kirkjunnar frá þeirri rússnesku en þær hafa verið eitt um aldir.

Á sama tíma og spenna vex stöðugt milli stjórnvalda í Moskvu og Kænugarði hefur orðið klofningur milli réttrúnaðarkirkna Rússlands og Úkraínu. Bartólómeus fyrsti patríarki í Konstantinópel staðfesti um mánaðamótin fyrri ákvörðun frá því í haust um sjálfstæði úkraínsku kirkjunnar frá þeirri rússnesku en þær hafa verið eitt um aldir. Í yfirlýsingu Bartólómeusar sagði að sýnódus eða kirkjuþing hefði ritað skipulagsskrá fyrir úkraínsku kirkjuna og fylgt þannig eftir fyrri ákvörðun um að sú úkraínska hafi sitt eigið höfuð. Þessi ákvörðun er talin reiðarslag fyrir bæði veraldleg og geistleg yfirvöld í Moskvu og en vera Petro Porosjenkó forseta Úkraínu lyftistöng. 

Gömul átök ýfast

Tengsl rétttrúnaðarkirkna í Úkraínu og Rússlandi hafa verið náin í margar aldir. Sjálfstæði kirkjunnar er talið sérstaklega mikilvægt og spegla togstreituna milli Porosjenkós og Vladimírs Pútíns forseta Rússlands. Þar bætti enn í nýlega þegar Rússar hertóku þrjú úkraínsk skip og áhafnir þeirra á Kerts-sundi undan Krímskaga. Talið er að rúmlega 10 þúsund hafi fallið frá því átök Rússa og Úkraínumanna hófust fyrir fjórum árum þegar rússneski herinn innlimaði Krímskaga. Pútín hefur sagt að ekki sjái fyrir endann á átökunum á meðan Porosjenkó sé við völd í Úkraínu. Spennan á veraldlega sviðinu hefur ýtt undir gömul átök á því kirkjulega. 

Kirkjan í Moskvu þegar klofið sig frá

Rétttrúnaðarkirkjan lýtur ekki einum leiðtoga eins og rómversk-kaþólska kirkjan lýtur páfanum í Róm. Rétttrúnaðarkirkjan skiptist í á annan tug sjálfstæðra kirkjudeilda, sem hver hefur sinn leiðtoga, patríarka. Rússneska kirkjan er þó langstærst og patríarki hennar Kírill því með áhrifamestu leiðtogum hennar en höfuðpatríarkinn löngum verið Bartólómeus patríarki í Konstantínópel; hann hefur þó ekki boðvald yfir öðrum patríörkum, heldur telst fremstur meðal jafningja. 

Rússneska deildin auðug og stór

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan sagði sig í haust frá tengslum við Austurkirkjuna sem Bartólómeus leiðir, sú rússneska er  stærsta og auðugusta kirkjudeildum í Austurkirkjunni og það því áfall fyrir hana. Kírill hefur ekki fellt sig við vaxandi samhljóm milli Bartólómeusar og kaþólsku kirkjunnar undir forystu Frans páfa og þá féllu stuðningur hans við sjálfstæði úkraínsku kirkjunnar í grýttan jarðveg.  Rússneska kirkjan er langfjölmennasta kirkjudeildin í  Rétttrúnaðarkirkjunni. Sjálfur söfnuðurinn í Istanbúl er ekki nema um rúmlega þrjú þúsund manns þó að Bartólómeus sé eins og áður sagði talinn fremstur meðal jafningja kirkjuhöfðingjanna og þannig andlegur leiðtogi milljóna manna. 

Leyniþjónusta sakar ábóta um að kynda undir hatri

Fyrir nokkru gerði úkraínska leyniþjónustuna húsleit í stærst og elsta klaustri Kænugarðs sem heyrir undir rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna. Ábótinn þar var grunaður um að kynda undir hatri að því haft er eftir yfirmanni í leyniþjónustunni. Höfuð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, Kírill patríarki, hefur verið náinn Pútín forseta og kirkjan í Moskvu talin til helstu bandamanna hans. Hún enda mjög íhaldssöm og hefur beitt sér af heift gegn frjálslyndi, fjölmenningu og hinsegin fólki.

Hin þriðja Róm fallin

Eldsprengjum var kastað að kirkju heilags Andrésar í Kænugarði um miðjan síðasta mánuð, og piparúða ýrt á prest. Ekki hlutust af skemmdir og reyndar ekki ljóst hver þar var að verki. Talsmaður kirkjunnar, Jefstratí erkibiskup, var engu að síður sannfærður um að að þar hefðu útsendarar Moskvu verið að verki sem vildu mikið til vinna til að halda í hinar úkraínsku sálir. Og Porosjenkó forseti Úkraínu var ómyrkur í máli þegar hann sagði að með aðskilnaði væri fallin hin þriðja Róm og með sjálfstæði úkraínsku kirkjunnar hrikti enn í tilkalli Moskvu til heimsyffirráða á hinu andlega sviði. Þriðja Róm er þá Moskva en sumir hafa viljað líta svo á að miðstöð kristni hafi flust þangað þegar Konstantínópel féll á fimmtándu öld. 

 

 

annakj's picture
Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV