Hin praktíska markaðsvæðing menntunar

Mynd: Sóla Þorsteinsdóttir  / Sóla Þorsteinsdóttir

Hin praktíska markaðsvæðing menntunar

29.03.2017 - 15:47

Höfundar

Sóla Þorsteinsdóttir fjallar í dag um markaðsvæðingu menntunar og áherslu okkar á að velja „praktískt“ nám. Hvaða áherslur viljum við hafa í íslensku menntakerfi í dag, og hvað meinum við þegar við segjum „praktískt“? Er það virkilega svo praktískt að láta hugvísindin mæta afgangi? Sóla ræðir stöðu hugvísindinna, myglusvepp í Listaháskólanum og menningu Sama, svo fáeitt sé nefnt.

Sóla Þorsteinsdóttir skrifar
„Það er staðreynd í dag, að viðhorf okkar til menntunar hafa breyst.  Nú þarf það ekki að vera slæmt að hlutirnir breytist, en það má þó setja spurningarmerki við áherslumuninn sem orðið hefur. Við erum ekki lengur að mennta okkur svo mikið áhugans vegna, af því að þetta er það sem okkur langar að gera, þetta er það sem við erum góð í, heldur af því að þetta hefur verið málað upp sem eini raunverulegi möguleikinn til að fá góða vinnu.

Það er þessi djúpstæða tenging náms við vinnumarkaðinn sem ég set spurningarmerki við. Auðvitað viljum við búa í samfélagi þar sem allir hafa kost á menntun, en hverjar eru forsendurnar að baki þessa menntunarblætis? Eða, ætti ég að segja gráðu-blætis? Gerir þessi gríðarlega áhersla á að allir séu hámenntaðir kröfuna ekki svolítið marklausa? Ef við þurfum öll að hafa menntun til að standast kröfur vinnumarkaðarins, má ekki segja að krafan falli um sjálfa sig? Hún þýðir ekki neitt, og þekkingin sem við öðluðumst á námsferlinum fellur í skuggann á því að geta hakað við „háskólapróf“ á starfsumsókn.

Menntun í dag hefur misst gildi sitt, að því leyti að við erum uppteknari af því að framleiða vinnuafl fyrir hagkerfið, heldur en að staldra við og spyrja hvers virði þessi menntun sé, menningarlega séð. Erum við að mennta okkur til að bæta samfélagið, samfélagsins vegna, eða erum við að drífa okkur að klára gráðu til að komast út á vinnumarkaðinn?

Það er bara svo kaldhæðnisleg staðreynd að við státum okkur endalaust af okkar frægustu rithöfundum, tónlistarfólkinu sem hefur gert það gott erlendis, leikurum og listamönnum. En samt leyfum við hugvísindum við Háskóla Íslands að grotna niður, og leyfum Listaháskóla Íslands bókstaflega að mygla. Listaháskólinn hefur svo lengi þurft að sætta sig við úrelt húsnæði að nemendur og kennarar kvarta undan afleiðingum myglusvepps. Við erum uppteknari af því að koma nýútskrifuðu fólki út á vinnumarkaðinn, en að skoða menningarlegt vægi menntunarinnar. Þessu hafa hugvísindin og listnám sannarlega fengið að finna fyrir að undanförnu.

Án þess að taka eftir því höfum við markaðsvætt einstaklinga. Ég er ekki lengur bara nemi, ég er vara. Hvaða skilaboð erum við samt að senda, þegar offramboð er af nýútskrifuðum lögfræðingum, viðskiptafræðingum, hagfræðingum og fleiri „öruggum“ greinum? Nú er ég ekki að gera lítið úr vægi þessara stétta, en getum við virkilega haldið því fram að það sé jákvætt fyrir samfélagið að hafa offramboð af fólki í örfáum stéttum, bara vegna þess að þeim var lofað gulli og grænum skógum fyrir að fara í öruggt nám? Þegar við steypum öllum í sama form, og hneykslumst svo á því hve einsleitt samfélagið er orðið. Við getum ekki öll verið lögfræðingar, eða viðskiptafræðingar. Auðvitað koma alltaf inn tískufög, en þá væri þeim mun gáfulegra að efla fjölbreytileikann svo allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Við megum ekki vera of fljót að útiloka hugvísindin, og gera ráð fyrir því að þau hafi minna vægi en hin „praktísku“ fög. Því fjölbreyttara úrval, því meiri líkur á að allir finni eitthvað við sitt hæfi, og minni líkur á að við steypumst öll í sama form. Ef við tætum upp skóginn, getum við þá  virkilega leyft okkur að vera hissa þegar við stöndum eftir í menningarlausri auðn?“