Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hin látnu voru inni í gígnum þegar eldgosið varð

09.12.2019 - 19:13
Erlent · eldgos
Mynd: RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds / RÚV/Vilhjálmur Þór Guðmunds
Lögreglan í Nýja Sjálandi segir nánast útilokað að einhver finnist á lífi eftir eldgos á Hvítueyju undan ströndum landsins. Prófessor í eldfjallafræðum segir eldgos tíð á svæðinu en enginn fyrirboði sé fyrir gosunum.

Það var um klukkan tvö eftir hádegi að staðartíma að eldgos hófst skyndilega á eyjunni Whakaari, eða Hvítueyju, undan ströndum Nýja Sjálands.

„Það má segja að þetta sé alveg dæmigert gos fyrir Hvítueyju. Þetta eru eiginlega svona stórar hverasprengingar. Það kemur pínulítið af kviku upp í þessu en yfirleitt er þetta bergmylsna frá veggjum gosrásarinnar. Það er eiginlega enginn fyrirboði en þau eru mjög tíð og þau eru  mjög lítil,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræðum við Háskóla Íslands.

Þorvaldur vann við rannsóknir á Hvítueyju hér á árum áður og þekkir vel til þar. 

„Þetta er virkt eldfjall sem er um 1600 metrar frá sjávarbotni og upp að sjávaryfirborði og síðan eru um 300 metrar sem standa upp úr. Og það er í raun og veru toppgígurinn á eyjunni.“

Langt til lands

Um 50 ferðamenn voru á eyjunni, þeirra á meðal hópur frá skemmtiferðaskipi. 

„En það vill svo til að fólkið sem er þarna, ferðamennirnir. Þau eru inni í gígnum þegar gosið verður. Þau bæði verða fyrir sprengingunni og gjóskufallinu sem henni fylgdi.  Eyjan er þannig að toppgígurinn er með mjög bröttum veggjum á þrjár hliðar og hann er opinn til austurs. Eyjan er 50 kílómetra norður af ströndum Nýja Sjálands svo jafnvel þó þú komist í sjóinn er dálítið langt til lands,“ segir Þorvaldur.

Tuttugu og þremur var bjargað, af þeim eru fimm látin og öll hin með áverka á borð við brunasár. Átta er enn saknað. 

Er það góð hugmynd að vera með ferðamannaiðnað á svona virkum eldstöðvum eins og þarna?

„Það er góð spurning. Góð og ekki góð, ef fólk veit hvaða áhættu það er að taka og vill taka hana þá er kannski ekki mikið sem maður getur sagt. “