Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Himneskir hörputónar með háreysti

Mynd: Stafrænn Hákon / Stafrænn Hákon

Himneskir hörputónar með háreysti

20.04.2018 - 14:00

Höfundar

Hausi er tíunda plata Stafræns Hákons, en hið glæsta hljóðfæri harpa á hér einkar sterka innkomu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Stafrænn Hákon hefur lengi verið hugarfóstur Ólafs Josephssonar, en hann setti sveitina af stað árið 1999. Lengi vel var þetta eins manns sveit og fyrstu útgáfur lágfitlslegar (e. „lo-fi“), surgandi og þægilega skítugt neðanjarðarrokk. Síðrokkið lá til grundvallar sköpuninni; Mogwai, Godspeed... og þvíumlíkt. Í dag er Stafrænn Hákon hins vegar hljómsveit þar sem inntökuskilyrði eru m.a. þétt og myndarlegt alskegg (segi svona). Síðasta plata, Eternal Horse, var nokkuð straumlínulöguð og jafnvel poppuð. Aðgengilegt verk í raun, þó að áðurnefnt síðrokk hafi verið hráefnið.

Mynd með færslu
Ólafur Josephsson og Hausi á vínyl

Nýjar áttir

Á Hausa (ég elska þessa plötu- og lagatitla Ólafs) er enn snúið í nýjar áttir og sveitin má eiga það, að hún vinnur nokkuð haganlega innan þess forms sem hún hefur valið sér; togar og teygir formið eins og hægt er, án þess þó að skrumskæla. Upplegg plötunnar á sér rætur í 20 mínútna spunaverki, byggðu í kringum hörpuleik Lárusar Sigurðssonar, sem er einn af meðlimum hljómsveitarinnar. Auk Lárusar sér Árni Þór Árnason um bassaleik og baritone gítarspil, Ólafur Josephsson sér um gítarleik, forritun og hljómborð og Róbert Már Runólfsson leikur á trommur. Tveir góðir gestir koma þá við sögu en Þórður Hermannsson leikur á selló og Þröstur Sigurðsson blæs í básúnu.

Harpan sló því tóninn, bókstaflega, og áferðin er ólík þeirri sem Eilífðarjórinn bar með sér. Sértækari einhver veginn, platan er t.a.m. með öllu ósungin, og við sveiflumst meira í átt til hins listræna en hins söluvænlega, ef svo má segja. Hörpuleikur Lárusar er t.a.m. til staðar í öllum lögum, ýmist undirstingur stemninguna eða flýtur með öðrum hljóðfærum. Upphafslagið, „Rafall“ er rokkað en gítar æpir þar á himnesku hörputónana. Á „Duft“ er slakað á hins vegar, Tortoise-leg stemning nánast. Flæðið er gott á plötunni, eins og allar góðar ósungnar plötur bera með sér, en eins og segir, það eru alltaf tilbrigði við stef. „Strimill“ leikur sér með sígilda síðrokksuppbyggingu, verður ágengara eftir því sem á líður, og springur út í lokin með gítarhávaða og trommutundri. „7/4 önd“ er blítt á meðan lokalagið, „Hulsa“ er sveitt og rokkað.

Kúrs haldið

Aðdáendur Stafræns Hákons verða ekki fyrir vonbrigðum, kúrsi er haldið en nýjabrumið þó hæfilegt. Kannski að jarðlúður („didgeridoo“) keyri næsta verk og meðlimir verði búnir að skipta út skeggi fyrir dredda? Nei, segi svona...

Tengdar fréttir

Tónlist

Hin indæla alþýðutónlist

Tónlist

Blúsuð býfluga

Tónlist

Kátur, kerskinn og kyndugur

Tónlist

Rafpopp hins hugsandi manns