Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Himneskar kjötbollur frá Feneyjum

Mynd: http://www.veneziaeventi.com/wp- / http://www.veneziaeventi.com/wp-
Matgæðingur þáttarins Sigurlaug Margrét Jónasdóttir kom í dag og fór með hlustendur í stuttan og bragðgóðan göngutúr um Cannaregio hverfið í Feneyjum og sagði frá ómótstæðilegum kjötbollum og freyðivíni sem drukkið er úr plastglasi og afgreitt yfir borðið.

 

Polpette di carne

450 gr mjölmiklar kartöflur (Skræla þær og mauka með gafli)

3 hvítlauksrif

250 gr nautahakk

Handfylli steinselja

5 msk parmesanostur

Eitt egg

Brauðrasp

Óífuolía

Salt og pipar

 

Sjóða kartöflur í söltu vatn, þerra þær og stappa niður, nota t.d. mixer .

Þrýsta með hníf á hvítlauksgeirana, salta þá örlítið og bæta út í kartöflurnar og halda áfram að mauka þær með hvítlauknum

Bæta kjötinu  út í og blanda vel saman.  Þegar blandan hefur kólnað örlítið þá er að bæta út í kryddinu, egginu og ostinum.

Setja í kæli í klukkustund, (má vera lengur)

Þá er að búa til bollurnar á klassískan máta með skeið og lófanum, þú ræður hvað þær eru stórar.  Settu brauðrasp á disk og þá er að velta bollunum upp úr raspinum.

Hita olíuna og setja kjötbollurnar rólega út í olíuna, ekki snerta þær fyrr en önnur hliðin er orðin fallega brún, þá er að snúa þeim við og steikja þar til liturinn er orðin fallegur.  Strá salti yfir og bera fram strax.

Þessar kjötbollur heita  Polpette di carne og það er þess virði að koma sér til Feneyja taka Vaporetti að Ca d´oro stoppustöðinni og finna litla veitingastaðinn ALLA VEDOVA sem staðsettur er í litlu ævintýralegu sundi.

Þar eru bollurnar afgreiddar yfir borðið , pakkaðar inn í pappír og með þessu er drukkið Prosecco í plastglasi.  Svo er að standa eins og innfæddir fyrir utan staðinn og borða þær dásamlegustu bollur sem til eru í heiminu, sötra vínið með og þykast skilja ítölskuna sem hljómar í kringum mann.

 

ghansson's picture
Gunnar Hansson
dagskrárgerðarmaður