Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hillary Clinton ætlar ekki í framboð

05.03.2019 - 06:40
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég verð ekki í framboði, en ég held áfram að vinna að því sem ég trúi á," sagði Hillary Clinton í viðtali við sjónvarpsstöð í New York í gær. Þannig staðfesti hún í fyrsta sinn að hún ætli ekki að reyna að verða frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum á næsta ári.

Clinton hafði betur gegn Bernie Sanders í forvali Demókrata fyrir kosningarnar 2016, en laut í lægra haldi gegn Donald Trump í forsetakosningunum sjálfum. Hún hlaut raunar fleiri atkvæði en Trump á landsvísu, en Trump hlaut fleiri kjörmenn og þar með embættið.
Þó hún ætli ekki í framboð fullvissaði hún áhorfendur um að það þýði ekki að hún ætli að láta sig hverfa af opinberum vettvangi. „Ég er ekki að fara neitt. Það sem er í húfi í landinu okkar, hlutirnir sem eru að gerast hér og nú, valda mér þungum áhyggjum," hefur AFP fréttastofan eftir henni.

Hún heldur sig heldur ekki frá slagnum í forvali Demókrata. Hún segist hafa rætt við nokkra þeirra sem líta framboðið hýru auga. Þeirra á meðal er Joe Biden, samkvæmt heimildum CNN, en hann hefur enn ekki opinberað hvort hann gefi kost á sér.

Aðspurð hvort hún ætli að bjóða sig fram til einhvers annars opinbers embættis sagðist Clinton halda ekki. Hún njóti þess að búa í New York og sé þakklát fyrir að hafa fengið að vera fulltrúi ríkisins í öldungadeild þingsins í átta ár.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV