Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hið varasama leg

Mynd: . / .

Hið varasama leg

11.09.2017 - 15:51

Höfundar

Hugmyndir um kynlíf, ástaratlot og afleiðingar þessa hafa verið fjölmargar og á reiki í gegnum tíðina. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir veltir fyrir sér getnaðinum, æxlunarfærum og hinu varasama legi í pistli sínum í Víðsjá.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:

„Það líffræðilega ferli þegar sæðisfruma og egg sameinast og mynda okfrumu sem síðan tekur að skipta sér og nær loks bólfestu í leginu hefur haldist óbreytt frá upphafi mannkyns og lengur. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þetta ferli eigi sér sögu eins og annað í mannlegri tilveru. Frumurnar sem taka þátt í þessu ferli eru svo smáar að það var ekki fyrr en á seinni helmingi 19. aldar sem það varð almennilega ljóst hvernig getnaður fór fram. Þangað til byggðust vangaveltur um getnaðinn fyrst og fremst á ímyndunaraflinu og þær vangaveltur endurspegla oftar en ekki hugmyndir samfélagsins um þann mun sem væri á eðli og stöðu karla og kvenna.

Karlmaðurinn lagði til form barnsins

Eins og flest annað í vestrænni menningu þá teygir þessi saga sig aftur til Grikklands í fornöld. Þó enginn gæti vitað af tilvist sæðisfruma þá var sæðið sjálft augljóst og greinilegt að það gegndi einhverju hlutverki í getnaðinum. Aristóteles áleit að væri það karlmaðurinn sem legði til form barnsins á meðan konan legði til efnið, karlmaðurinn hefði því mun áhrifameira hlutverk. Þarna var hann þó einn á báti, því ríkjandi hugmynd innan forngrískrar læknisfræði öldum saman var sú að konur legðu einnig til einhverskonar sæði í samförum. Þessi hugmynd byggðist á því sem karlmenn þekktu af eigin raun. Þeim þótti því líklegt að sæði kvenna yrði til við kynferðislega ánægju rétt eins og þeirra eigin, en grískir læknar voru handvissir um það að hámark kvenlegrar fullnægju kæmi í kjölfar sáðláts karlmannsins. Þessi blauta gusa hlyti nefnilega að vera svo eftirtektarverð og hressandi. Sæði beggja blandaðist síðan saman og ef legið hleypti blöndunni inn og lokaðist um það þá yrði til barn. Yngri læknar innan grísku hefðarinnar, þeir Soranus og Galenus á 1. og 2. öld eftir Krist, voru ekki jafn sannfærðir um tilvist hins kvenlega sæðis en álitu engu að síður að ánægja kvenna í kynlífi væri nauðsynleg fyrir getnað því þá opnaði legið sig betur. Þessi ranghugmynd að kynferðisleg ánægja kvenna sé ein af undirstöðum getnaðar er nokkuð krúttleg, fyrir utan þá leiðu röksemdafærslu sem af þessu hlaust að þungun útilokaði það að nauðgun hefði átt sér stað.

Legið gæti ofþornað vegna blæðinga

Þessi sýn á kynferðislega ánægju kvenna er ekki bara mjög karlmiðuð heldur líka mjög þungunarmiðuð. Samkvæmt sumum höfundum upplifðu konur ekki aðeins ánægju þegar þær og karlmaðurinn losuðu sitt hvort sæðið heldur líka þegar þær fundu legið lokast um blönduna. Þetta ferli þætti konunni ekki bara ánægjulegt, það væri henni líka heilsusamlegt. Í augum grískrar læknisfræði var legið alls ekki sjálfbært líffæri, það gat hæglega ofþornað vegna endurtekinna tíðablæðinga og þá var voðinn vís, það gat farið á flakk innan líkamans í leit að nauðsynlegum vökva. Þess vegna var mikilvægt að halda því vel vökvuðu og helst þunguðu svo það héldist á sínum stað. Samkvæmt þessari sýn á kvenlíkamann var fátt hollara fyrir konu en að vera stöðugt ólétt. Yngri læknar innan grísku hefðarinnar eins og Soranus og Galenus höfðu hins vegar betri þekkingu á líffærum mannslíkamans, þeir vissu að legið sat kirfilega fast og algjör óþarfi að leggja út í endurteknar meðgöngur til að halda því niðri.

Því óvirkari sem konan var því betra

Hugmyndin um sæði beggja kynjanna, eða í það minnsta nauðsyn kvenlegrar ánægju fyrir getnað, lifði góðu lífi á evrópskum miðöldum. En Aristóteles var samt sem áður sá fræðimaður sem mestrar virðingar naut í miðaldakristni. Þess vegna öðlaðist hugmynd hans um að karlmaðurinn legði til formið en konan efnið aukna útbreiðslu. Þessi passíva sýn á hlut kvenna í getnaði hafði einnig hugmyndafræðilegt mikilvægi, höfundar notuðu oft hjónaband karls og konu sem myndlíkingu fyrir eðlilegt samband á milli konungs og þegna eða guðs og manna. Annar var stjórnsamur og ábyrgur en hinn leiðitamur og hlýðinn. Á miðöldum var guð alltumlykjandi fyrirbæri og ekki fór á milli mála að sá guð var karlkyns. Þar sem heimurinn var skapaður af guði þá  var auðvelt að draga þá ályktun að sá helmingur mannkyns sem líktist honum meira, karlmennirnir, ættu stærri og merkilegri þátt í sköpun nýrra mannvera. Þetta viðhorf má til dæmis greina í íslenskri riddarasögu frá 14. öld, Sigurðar sögu þögla. Þar er ljóninu lýst sem hliðstæðu dýraríkisins við sjálfan guð, því ljónynjan gjóti dauðum hvolpum sem karlljónið blási svo lífi í eftir þrjá daga og þrjá nætur. Þetta er í skemmtilegri mótsögn við það sem vitað er í dag, að ljónynjur þurfa að gjóta á laun og gæta sérstakra ráðstafana svo karldýrið káli ekki hvolpunum, en það gat íslenskur miðaldahöfundur ómögulega vitað. En honum fannst af einhverjum ástæðum að því óvirkari sem kvendýrið væri í sköpun afkvæmanna, því nær stæði dýrið guðlegum krafti.

Froðan lokaðist inni í leginu

Það er hins vegar erfitt að taka fyrir eina hugmynd og lýsa því yfir að hún hafi verið ríkjandi á miðöldum. Miðaldahöfundar og fræðimenn voru ósammála um alls konar hluti og það er hreint ekki víst að almenningur hafi einu sinni þekkt hugmyndir þeirra, hvað þá verið sammála þeim. Vandamálið er að flestir sem skrifuðu um kynlíf á miðöldum tilheyrðu hópi sem átti, í það minnsta opinberlega, að stunda skírlífi. Vísindi á miðöldum voru almennt séð ekki byggð á reynslu eða tilraunum, leiðin að þekkingu var sú að lesa rit annarra traustra höfunda og beita sinni eigin rökhugsun á þau til að bæta þau og skýra. Þar af leiðandi eru skrif þeirra flestra keimlík og jafnvel þær fáu konur sem skrifa um efnið, eins og nunnan Hildegard frá Bingen, bæta litlu við. Hildegard hallaðist þó frekar að því að konur legðu líka sæði til getnaðarins, frekar en það passíva hlutverk sem þær hafa samkvæmt Aristótelesi. Eins og margir miðaldahöfundar áleit hún að sæði karla og kvenna væri einskonar froða sem yrði til við ástríðufullar ólgur í blóðinu en mikilvægast fyrir getnaðinn væri að það lokaðist inni í leginu. Líklega var það útbreidd hugmynd á miðöldum því það virðist hafa verið álitin góð getnaðarvörn að konan væri ofan á í samförum, en að sama skapi þótti það ótilhlýðilegt og ósiðlegt.

Sannfærandi útskýringar á furðulegum hugmyndum

Það er auðvelt fyrir okkur í dag að brosa að ruglingslegum hugmyndum fyrri alda um blóðfroðu sem gleypt væri af leginu eins og fiskamatur af gullfiski og þeim grundvallarmisskilningi að ánægja kvenna skipti höfuðmáli fyrir getnað en ekki tímasetning innan tíðahringsins. En ef maður les þessar útskýringar nógu lengi þá enda þær einhvern veginn á því að verða furðu sannfærandi. Við verðum líka að muna að á þessum tíma hafði fólk engar smásjár og takmarkaðan aðgang að þeirri mikilvægu þekkingu sem fæst við krufningar. Forn-Grikkjum og miðaldamönnum til varnar má líka benda á það að þrátt fyrir aukna líffræðilega þekkingu á æxlunarfærunum með tilkomu nútímalæknavísinda, þá jókst skilningurinn ekki í samræmi við það. Sæðisfrumur voru lengi álitnar einhvers konar sníkjudýr og órökréttar áhyggjur af leginu jukust frekar en minnkuðu. Óþarfar og jafnvel skaðlegar meðferðir við ýmsum ímynduðum legkvillum voru jafnan fylgifiskar aukinna rannsókna, allt fram á 19. öld.“