Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hið röklega tengt við tilfinningastrengi

Mynd: RÚV / RÚV

Hið röklega tengt við tilfinningastrengi

12.10.2019 - 11:35

Höfundar

„Hér er um blöndu rannsóknarritgerðar, ævisögulegrar og sjálfsævisögulegrar frásagnar, skýrslu og viðtala að ræða og verður að segjast að höfundi tekst gríðarvel að vefa þessa þræði saman,“ segir bókarýnir Víðsjár um Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Andri Snær Magnason er lunkinn höfundur. Hann hefur þann hæfileika að geta tekið og tengt saman ólíkar hugmyndir og fyrirbæri og varpað þannig ljósi á eitthvað þriðja eða málefni sem undir liggur. Þrátt fyrir að um sé að ræða viðfangsefni sem okkur er vel þekkt, í þessu tilfelli umhverfið og loftslagsmálin, þá getur hann sameinað tilfinningar og tölur nánast í sömu andrá til að undirstrika það sem við kannski vel vitum, eða eigum að minnsta kosti að vita, en látum framhjá okkur fara vegna „suðsins“ eins og hann nefnir það, alls gauragangsins í daglegu lífi, fjölmiðlum. Greiðinn sem hann gerir okkur lesendum, og raunar áhorfendum að listamannaspjalli sínu í Borgarleikhúsinu, er að hnippa í okkur þannig að suðið hverfur og alvara málsins verður okkur raunverulega ljós, eða ætti að verða okkur það.

Nýja bókin, Um tímann og vatnið, er við fyrstu sýn eins og safn af reynslusögum, anekdótum, sem, einnig við fyrstu sýn, hanga ekki endilega mjög vel saman; frásögur af öfum og ömmum, frænda sem var krókódílafræðingur, viðtöl við Dalai Lama, umfjöllun um framleiðsluofstopa mannkyns með tilheyrandi umhverfisspjöllum, allt kryddað sjálfævisögulegum þáttum sem þó þjóna aðeins magnaðri samtengingu allra þessara og fleiri þátta.

Ekki enn ein heimsendaspáin

Einhvers staðar á Andri Snær að hafa sagt að bókin hafi verið erfið í samningu og má vel trúa því þótt ekki sé neina strembu á textanum að sjá. Höfundurinn tekst til dæmis opinskátt á við textategundina eða bókmenntagreinina sem verkið fellur undir; eðli málsins samkvæmt er þetta heimsósómaverk, en sögumaðurinn vill ekki skrifa eina „heimsendaspána“ enn, vel vitandi að þær eru margar gamlar og nýjar og svo gerir hann nákvæmlega það, kannski að viðbættri örlítilli kristilegri von, eða alla vega von.

En hann nálgast verkið á mjög frumlegan hátt, líkt og hann hafði áður gert í Draumalandinu og eftir að hafa komið með nokkrar samtímalegar staðreyndir og hugleiðingar um stöðu umhverfismála, í snjöllu samhengi Höfða og höfuðstöðva Kaupþings, táknmynda þeirra kerfa tuttugustu aldar, kommúnisma og kapítalisma, sem bæði bjuggu til þá vítisvél sem færði okkur vissulega lífsgæði á sínum tíma, en eru nú annaðhvort horfin í haf sögunnar eða aðframkomin við að brenna Róm meðan við hin spilum á fiðluna okkar, þá snýr hann sér sjálfsævisögulega að persónulegri tengingu við Íslands dýrasta arf, miðaldahandritin okkur og þá sérstaklega Konungsbók Eddukvæða.

Þetta er þó ekki gert til að mæra okkar þjóðlegu afrek sérstaklega, heldur til að setja okkar samtíma í samhengi við tímann með þeirri einföldu ábendingu að þetta handrit, okkar dýrasta djásn, er 700 ára gamalt og við höfum enn samband við það. Það geymir reyndar líka eina heimsendaspá í ofanálag. Þetta gerir hann til þess að fá okkur til hugsa um næstu 700 ár og þá fer eitthvað að hreyfast í hugum lesenda og segja má að Andri Snær endurtaki þetta stef með nokkrum brigðum í gegnum bókina, að fá okkur til að hugsa um fortíðina með algjörlega beinni tengingu við framtíðina, eða öllu heldur hvernig við tengjumst henni með gerðum okkar og ekki síst afkomendum.

Náttúrunni er sama um okkur

Sjálfsævisögulega aðferðin er kannski svolítið vink til Knausgaards, en þetta verk hefur samt allt aðra drifkrafta; hér er um blöndu rannsóknarritgerðar, ævisögulegrar og sjálfsævisögulegrar frásagnar, skýrslu og viðtala að ræða og verður að segjast að höfundi tekst gríðarvel að vefa þessa þræði saman, þótt hér og þar sé stundum stokkið nokkuð bratt úr einu í annað. Drifkrafturinn er samt hugsjón og draumur, von um að við mannkyn náum að stöðva vítisvélina, bálið mikla sem við brennum upp á hvern dag, olíufossinn sem er á við Dettifoss og brennur án afláts, þetta er von sem Andra Snæ tekst betur en flestum að tengja við börnin okkar, og það þrátt fyrir að hann sé miðaldra hvítur karlmaður.

Hann reynir vitaskuld ekki að vera einhver Greta Thunberg, hann gerir það með þeim tækjum sem hann hefur og mega teljast til hins mikla vopnabúrs Vesturlanda og ekki síst hvítra karla í þessum sömu löndum, en það er þekkingin, upplýsingin, eða svokölluð skynsemi, fyrirbrigði sem um aldir hafa verið notuð til að ná valdi á náttúrunni, beita henni í okkar þágu, alveg þangað til hún er komin að því að rífa undan okkur öll okkar tilveruskilyrði með viðbrögðum sínum; náttúrunni er nefnilega alveg sama um okkur, hún breytist en hverfur ekki, en dýrategundir hafa margoft horfið. Mannkynið gæti vel orðið meðal þeirra næstu, en það þó með þeirri undantekningu að hún væri líkast til sú eina sem útrýmdi sjálfri sér vitandi vits og afsannaði þar með heitið „hinn viti borni maður“ með gerðum sínum. Þess vegna á þessi bók sérstaklega mikið erindi við hvíta miðaldra karla sem hafa gleymt sér í þægindum sinnar sterku stöðu.

Skemmdarverk í nafni skynseminnar

Við hinar röklegu, vísindalegu, bollaleggingar, sem víða má finna í textanum, tengir Andri Snær tilfinningastrengi og skáldlegar myndlíkingar sem sem gera verkið svo læsilegt, spennandi á köflum, það rótar í manni tilfinningalega meðan það höfðar til allra þessara lærðu þátta sem tengjast þekkingu, upplýsingu og skynsemi. Gott dæmi um þessa aðferð, ef svo skyldi kalla, er umfjöllunin um Kringilsárrana, ferðir ömmu hans og afa með Jöklarannsóknafélaginu og síðast en ekki síst bók um svæði sem hann fann og rituð var á stríðsárunum af Helga Valtýssyni, rómantískri lofgjörð um þetta gífurlega fagra svæði gljúfra og hreindýra og nú er horfið að eilífu undir drullupollinn sem knýr Kárahnjúkavirkjun. Ljósmyndirnar í bókinni og kvikmyndin sem Andri Snær sýndi á sýningunni í Borgarleikhúsinu undirstrikuðu þann umhverfisglæp sem þar var framinn til að búa til reykspúandi verksmiðju sem borgar ekki einu sinni tekjuskatt hér á landi og mega þeir stjórnmála- og hvatamenn sem að henni stóðu skammast sín að eilífu fyrir þau skemmdarverk sem framin voru á náttúrunni í nafni skynseminnar.

Andri Snær tekur sjálfur ekki svona sterkt til orða, honum er það til lista lagt að fá lesendur til að hugsa svona án þess að beita slíkum orðaforða. Hann er þó skýr og rökfesta hans birtist einmitt í nánast fræðilegu orðavali með vísunum í heimildir, en þó tekst honum með tengingum við lífið að halda lesendum föngnum og eins og áður hefur verið sagt, hreyfa við þeim svo um munar.

Áras á okkar eigin afkvæmi

Þræðirnir tveir sem ganga í gegnum verkið, tíminn og vatnið, halda því einnig þétt saman, vatnið sem bráðnar úr jöklunum fær sínar sögur, goðsögur, nýtúlkun og kannski dálítið teygða orðsifjafræðilega tengingu í gegnum Auðhumlu, sem virkar samt skemmtilega því hún er aðeins getgáta og þykist ekki vera neitt annað, hún er fyrst og fremst myndlíking eða samanburður goðsagna til að undirstrika sammannlega tilveru okkar allra. Jöklarnir í Himalajafjöllum og á Íslandi búa við nákvæmlega sömu ógn.

Tíminn verður ekki aðeins raunverulegur í gegnum hugleiðingar um Konungsbók Eddukvæða, heldur miklu nærtækari spurningu fyrir hvern og einn, reikningsdæmið sem við þurfum öll að reikna, ung sem öldruð, en það er tíminn sem persónuleg tengsl okkar hvers og eins við aðrar manneskjur spannar, allt frá okkar elstu áum, langömmum og -öfum eða ömmum og öfum til þeirra síðustu sem við getum þekkt. Meira að segja við sem erum kominn á miðjan aldur eða lengra, þekkjum, eða munum þekkja, fólk sem lifir vel fram á næstu öld. Það er því ekki aðeins kæruleysi gagnvart óþekktum afkomendum okkar að láta sem ekkert sé, eða það sem verra er, afneita vísindalegum staðreyndum, heldur beinlínis árás á okkar eigin afkvæmi, í stuttu máli sagt, mesti glæpur mannkynssögunnar.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Allsherjar breyting á öllu framundan

Umhverfismál

Hvernig stendur baráttan við hlýnun jarðar?

Menningarefni

„Þá deyja ekki nema 90% af kóralrifjunum!“

Menningarefni

Andri Snær verðlaunaður í Frakklandi