Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hið ódauðlega (sjónar)horn

Mynd: Flickr CC - Roberto Faccenda / Flickr

Hið ódauðlega (sjónar)horn

11.05.2017 - 15:50

Höfundar

Sigurbjörg Þrastardóttir er að skottast um Róm á útiskónum þessa dagana. Hún sendi Víðsjá pistil frá borginni eilífu og velti fyrir sér bíómyndum þar og víðar. Sigurbjörg skrifar:

Góðir hlustendur, þessi skýrsla gæti heitað Ódauðlegt horn, eða Horn í síðu Woodys, það er svona til að afsaka tóninn, en sumsé: Á horninu við enda götunnar þar sem ég bý þessa dagana eru klifurjurtir, kaffihús, veitingahús, búð og annað veitingahús, og það er gaman að segja frá því að á þessu horni tók kvikmyndaleikstjórinn heimskunni, Woody Allen, upp nokkrar senur fyrir Hollywood-mynd.

Eða – ef grannt er skoðað – er gaman að segja frá því? Hverju skiptir það, fyrir hornið, fyrir kaffihúsið, fyrir vegfarendur, eða Rómarborg sjálfa, að Woody Allen hafi tekið þar upp kvikmynd? Það skiptir kannski einhverju máli. Kannski er hornið orðið ódauðlegt fyrir vikið, fyrir að hafa komist á hvíta tjaldið, fyrir að hafa hlotið náð fyrir augum Woodys Allen – þið afsakið, ég reyni að halda mig við að beygja útlend fornöfn, ekki eftirnöfn – eða samstarfsmanna hans sem sjá um að „skáta“ tökustaði.

Ég, fyrir mitt leyti, þori nánast að fullyrða að mér myndi þykja alveg jafnvænt um þetta horn ef það hefði ekki verið í bíómynd – ég fer þangað á hverjum morgni að fá mér kaffi, þar er gaman að sitja, byggingarnar eru gamlar og hversdagslegar, samt glæsilegar, og það myndi, ef ég hugsa út í það, beinlínis trufla mig ef Alec Baldwin kæmi röltandi eftir götunni, eins og hann gerði í myndinni To Rome with Love, þessari, ja, hvað eigum við að segja, slöku Allen-mynd, mér fannst hún a.m.k. ekkert skemmtileg þegar ég sá hana fyrst, full af klisjum og borgarklisjum og leikaraklisjum, en nú er ég auðvitað búin að horfa á hana aftur, því mig langaði að rifja upp í hvaða senum hornið mitt kæmi fyrir. Það er nefnilega þannig að mér var snemma sagt frá því, eftir að ég kom hérna, að hornið hefði sést í bíómynd – og ég er búin að segja allt of mörgum, sem koma hingað í heimsókn, að hornið sé hornið í Woody Allen-myndinni. Þetta er svona kúríósa, sturluð staðreynd/gaman að vita, samt gerir það ekkert gagn.

Sem betur fer er bekkurinn sem Alec Baldwin situr á í myndinni ekki til staðar á horninu, og var kannski aldrei, kannski var hann hreint og klárt propps, en ef þessi bekkur væri á “sínum stað” væri væntanlega enginn friður fyrir fólki sem vildi láta taka þar mynd af sér. Sama hefur gerst með tiltekinn stað í París, eftir Woody Allen myndina Midnight in Paris. Ég var í þeirri borg í fyrra að lesa upp, las m.a. í einni bókabúð í V. hverfi og eftir lesturinn sagði skipuleggjandinn kátur: „Hey, hérna rétt hjá eru tröppurnar þar sem Owen Wilson tekur leigubílinn aftur í tímann í Woody Allen myndinni, viljiði sjá það?“ Og já, allir höfundarnir vildu sjá tröppurnar og auðvitað tókum við myndir, þóttumst vera persóna Owens Wilson að bíða eftir gamaldags leigubíl. Maður ræður ekkert við þetta. Ég man eftir því að hafa látið plata mig í Sex and the City-tour með rútu í New York fyrir meira en áratug, hafði lítið séð af þáttunum en varð mikill sérfræðingur í þeim eftir túrinn … „hérna er Tiffany’s þar sem Trey keypti trúlofunarhringinn handa Charlotte, hérna er bakaríið þar sem vinkonurnar fá sér bollakökur …“ Úff, ég fæ eiginlega hroll að hafa þetta eftir, þetta er svo kjánalegt.

Og ég hef örugglega áður sagt ykkur frá gosbrunninum í Central Park sem er merktur inn á kort með lógóinu úr Friends, og margir láta taka mynd af sér við – svo er þetta ekkert gosbrunnurinn úr Friends því hann er í stúdíói í Kaliforníu.

Galdur myndanna

Bíó er ekki til, þótt bíó sé stundum skotið á stöðum sem eru til. En á einhvern óútskýranlegan máta breyta bíómyndir – kannski ekki í öllum tilfellum, við erum helst að tala um áhrifaríkar myndir, í það minnsta þekktar myndir – upplifun okkar af stöðum. Myndskeiðin úr kvikmyndaupplifuninni renna saman við myndskeiðin sem ber fyrir veruleikaaugun, stundum bætist þannig á einhvern dularfullan hátt við ný vídd. Atvik á hvíta tjaldinu geta jafnvel virkað meira alvöru en í rislitlum veruleikanum. Fólkið sem maður mætir úti á horni er ókunnugt, maður hefur aldrei séð það áður, en þegar bætt er inn andliti sem maður hefur séð hundrað sinnum áður, andliti frægs leikara til dæmis, stimplast allt öðruvísi inn og verður … (hvað eigum við að segja, eigum við að láta okkur hafa það?) … stærra. Ég segi ekki að upptökur á Fast and the Furious 8 hafi breytt upplifun fólks af Faxabrautinni á Akranesi, eða að atriðið á pítsustaðnum Papa John’s í The Secret Life of Walter Mitty breyti því hvernig maður lítur á Geirabakarí í Borgarnesi, en samt, kannski fyrir einhverja, kannski fyrir þá sem þekktu ekki Geirabakarí fyrir. Og það verður reyndar að segjast að atriðið, þegar hrynur úr hlíðum Hafnarfjalls og letrið birtist, er áhrifaríkt fyrir þann sem er alinn upp við að horfa upp eftir snarbröttum hlíðum Hafnarfjalls. Að fjallið tali, það er einhvern veginn sneddí.

Kvikmyndagerðarmönnum getur þannig dottið í hug að gera dálitilar breytingar á veruleikanum, tilfærslur sem heimamönnum hefur ekki flogið í hug, setja bekk á fallegt horn, meitla orð í fjall, og það kannski eitt og sér dugar til þess að sveipa staðinn nýju andrúmslofti. Það sem leikstjóra La Dolce Vita flaug í hug að gera hjá Trevi-gosbrunninum í Róm, árið 1960, var að láta Anitu Ekberg klifra ofan í brunninn og súnna sig undir bununni, atriði sem margir telja eitt það þokkafyllsta frá þeim árum, og er núna til á ótal plakötum og dagatölum sem seld eru um alla Róm og auka enn á vinsældir gosbrunnsins. Þar er nú lögregluvörður allan sólarhringinn, sumir segja til þess að koma í veg fyrir að ferðamenn fari að dæmi Anitu Ekberg og Marcellos Mastroianni og vaði út í, aðrir segja af hefðbundnum öryggisástæðum.

Að eiga horn

Ég sit oft hér úti á horni og reyni að hugsa ekki um Woody Allen. Ég er leið yfir því að myndin hans hafi ekki verið betri, leið yfir því að hann þurfi að gera allt svona fyrirsjáanlegt í staðarrannsóknum stórborga í myndum sínum. Eða, er hann kannski að pikka í áhorfendur, kannski spila með þá Bandaríkjamenn sem tala um Evrópu í stikkorðum? Ég veit það ekki, ég vil bara eiga mitt horn út af fyrir mig … og um leið fatta ég að ég á það út af fyrir mig, alveg eins og allt hitt fólkið á horninu, starfsfólkið og verslunarfólkið. Kvikmyndir eru bara kvikmyndir, tökuliðið er löngu farið og það gerði ekkert af sér. Hvaða eignarhaldsárátta er þetta? Mannlífið þrífst á því að hver fari hjá á sínum forsendum og leggi sitt til málanna. Og það þróast áfram og fer í eigin áttir, síðar verður kvikmyndin bara daufur minnisvarði um það sem eitt sinn var, eða, um það sem leikstjórinn kaus eitt sinn að sýna okkur.

Að þessu sögðu er við hæfi að enda á ljóðinu 20. nóvember, eftir Atla Jósefsson, úr bók sem kom út árið 1991, það er leiftur frá liðnum tíma, ég veit ekki af hverju mér datt það í hug:

úti snjóar

og ég fæ mér ristað brauð