Heyrir sumar- og vetrartími sögunni til?

31.10.2018 - 18:09
Mynd: EPA-EFE / EFE
Klukkunni var seinkað um klukkustund í Evrópu, síðastliðinn sunnudag, og kannski í síðasta skipti. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram tillögu til aðildarríkja sambandsins þess efnis að á næsta ári verði þessi siður aflagður. Ekki er einhugur um tillöguna meðal aðildarríkja Evrópusambandsins.

Klukkunni seinkað á sunnudag

Það er heldur grátt um að litast í Brussel þessi dægrin og veturinn farinn að vara við komu sinni með tilheyrandi rigningarsudda og nístandi kulda. En þegar hún lætur sjá sig, er blessuð sólin þó nokkru fyrr á ferðinni en venjulega, enda kunna Evrópubúar ýmis ráð til að halda Vetri konungi fjarri, að minnsta kosti um stundarsakir. Eitt þeirra er að seinka sjálfri klukkunni í þeirri viðleitni að lengja daginn, að minnsta kosti í annan endann. Og það var gert á meginlandi Evrópu á sunnudaginn, þegar klukkunni var seinkað og um stund hætti tíminn, bókstaflega, að líða.

epa03620267 A view of the traffic on the 'Lawstreet'  (Rue de la loi), in Brussels, Belgium, 12 March 2013. Winter returned to wider parts of Europe on 12 March with partially heavy snowfalls and sub-zero temperatures.  EPA/JULIEN WARNAND
 Mynd: EPA
Veturinn er genginn í garð í Brussel, þótt enn eigi eftir að snjóa. Mynd frá Rue de la loi frá árinu 2013.

Sá siður að seinka klukkunni um klukkustund síðustu helgina í október, og flýta henni um klukkustund síðustu helgina í mars ár hvert á meginlandi Evrópu, á rætur sínar að rekja til stríðsáranna. Árið 1996 varð klukkubreytingin að lögum innan sambandsins. Í því að lengja og stytta daginn að hausti og vori fólst talsverður orkusparnaður hér áður fyrr, enda voru hús gjarna kynnt með kolum. Þá hefur því löngum verið haldið fram að það vakna í dagsbirtu hafi bætandi áhrif á sálartetrið.

84% hlynnt breytingunni

En rétt eins og það er víst ekki hægt að koma böndum á tímann, þótt hægt sé með lagasetningum að tefja hann um klukkustund eða svo, halda tímarnir áfram að breytast. Í síðasta mánuði tilkynntu forvígismenn Evrópusambandsins áætlanir um að afmá þessa annars ágætu hefð á næsta ári. Aðildarríki sambandsins fá frest fram í apríl til að ákveða hvort þau vilja breyta klukkunni einu sinni enn, eða halda sig við sumartímann sem tekur í gildi í mars. Ákvörðun sambandsins er byggð á víðtækri skoðanakönnun sem náði til allt að fimm milljón manns innan aðildarríkja sambandsins. 84% þeirra vildu hætta þessa bölvaða tímahringli og virðist ákvörðun sambandsins að mestu leyti byggð á vilja fólksins. Þá færa forystumenn sambandsins rök fyrir því að það að breyta klukkunni tvisvar á ári hafi neikvæð áhrif á atvinnulíf, heilsufar, auki líkur á umferðarslysum og dragi úr orkusparnaði, ólíkt því sem áður var. Þá verði breytingin hagstæð fyrir innri markaði Evrópusambandsins.

Ólíkir tímar innan Evrópu?

En úrlausnin er ekki vandkvæðalaus og hefur tillagan sætt nokkurri gagnrýni meðal aðildarríkjanna. Verði hún samþykkt og að lögum, hafa aðildarríkin nefnilega sjálf ákvörðunarrétt um hvort þau velja sumar- eða vetrartíma og því gæti orðið klukkutíma mismunur á nágrannaríkjum, nokkuð sem veldur hinu opinbera og stjórnendum fyrirtækja áhyggjum. Samgönguráðherra Austurríkis, Norbert Hofer, sagði til að mynda á mánudag að ef ESB héldi þessari stefnu til streitu nyti hún ekki meirihlutastuðnings aðildarríkja sinna. Flugmálayfirvöld þyrftu til dæmis að minnsta kosti 18 mánaða undirbúning og þá væri beinlínis hættulegt ef einstök ríki hefðu annan tíma en nágrannaríki sín. Samgönguráðherra Lúxembúrgar hefur tekið í sama streng og sagði það stórslys ef Belgía, Frakkland og Þýskaland væru ekki á sama tíma.

Hvað gera Bretar?

Og það er einmitt í mars sem Bretar, sem eru klukkutíma á eftir flestum ríkjum Evrópusambandsins, hyggja á úrgöngu úr Evrópusambandinu. Breskir ráðamenn hafa gefið til kynna að þeir hafi ekki í hyggju að hætta að breyta klukkunni þar í landi tvisvar ári, sem gæti þýtt að Bretland yrði einum til tveimur tímum á eftir eða undan öðrum Evrópuríkjum, varanlega, og að þegar klukkan slægi tólf á hádegi í Dublin á Írlandi, væri hún ellefu í Belfast á Norður-Írlandi.

epa06375800 British Prime Minister Theresa May attends at a press conference with EU Commission President Jean-Claude Juncker (R) prior to a meeting on Brexit Negotiations in Brussels, Belgium, 08 December 2017. Reports state that Theresa May is in
Theresa May og Jean-Claude Juncker á blaðamannafundinum í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.

Tíminn líður líka á Íslandi

Og víkur þá sögunni heim til Íslands, hvar ægivald veldur stjórnmálamönnum sömuleiðis heilabrotum. Í fyrra skipaði Óttarr Proppé, þáverandi heilbrigðisráðherra, starfshóp til að kanna ávinning og áhrif þess að leiðrétta klukkuna á Fróni til samræmis við gang sólar, á lýðheilsu og vellíðan landans.

Niðurstöður starfshópsins voru þær að núverandi fyrirkomulag hefði neikvæð áhrif á heilsufar fólks, og að sólarupprás og sólsetur séu að meðaltali einum klukkutíma seinna hér á landi en þau ættu að vera. Tillaga hópsins var sú að klukkan yrði færð aftur um eina klukkustund og því gætu Íslendingar farið aðeins seinna á fætur og birtustundum myndi fjölga. Ekki er lagt til að tekinn verði upp sérstakur sumar- og vetrartími.

Málið er nú á borði forsætisráðuneytis, og í vinnslu. Þar ráða lýðheilsusjónarmið ekki öllu, að sögn forsætisráðherra, og það skýrist á næsta þingi hvort ráðherra leggur málið fram eða ekki. Það er því að sjálfögðu tímans þungi niður, sem verður að fá að leiða í ljós hvernig við stillum klukkuna, til frambúðar, jafnt á Íslandi sem á meginlandi Evrópu.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi