Heyrði lag með Pöpum og flutti til Íslands

Mynd: Rætur / RÚV

Heyrði lag með Pöpum og flutti til Íslands

29.01.2016 - 15:00

Höfundar

Anup Gurung hefur búið í Skagafirði meira eða minna síðustu fimmtán ár. Hann er Nepali og ólst upp í Katmandú. Þegar hann var á unglingsaldri hitti hann Íslending í fyrsta sinn og það var hjá honum sem hann heyrði lag með hljómsveitinni Pöpum. Það þurfti ekki meira til. Lagið kveikti neistann og til Íslands vildi hann fara!

Í dag rekur Anup fyrirtækið Viking Rafting á Hafgrímsstöðum í Skagafirði og býr með fjölskyldu sinni í Varmahlíð. Flúðasiglingar eru hans ær og kýr. „Sama hvaða vandamál þú ert að fást við í lífinu. Þótt þú hafir misst einhvern eða einhver sært þig. Þegar þú siglir af stað þá gleymirðu öllu,“ segir Anup.

Anup komst í fréttirnar í fyrravor eftir að stórir jarðskjálftar riðu yfir í heimalandi hans. Þá stóð hann fyrir söfnun áður en hann fór sjálfur heim og tók þátt í björgunarstörfum. „Fólk er svo vinalegt. Ég ætlaðist ekki til neins, mig langaði bara sjálfan að fara. En eftir að ég setti upp Facebook-síðu deildi henni fjöldi fólks og mér tókst að safna þremur milljónum króna.“ Fyrir söfnunarféð gátu hann og félagar hans boðið á annað þúsund fjölskyldum tímabundið húsaskjól, mat og læknisaðstoð. 

Anup er á meðal viðmælenda í fimmta og síðasta þætti Róta, sem sýndur verður á sunnudagskvöldið kemur kl. 19:45. Í Rótum er fjallað um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. Í þessum síðasta þætti verður líka fjallað um birtingarmyndir innflytjenda í fjölmiðlum og farið í heimsókn til bandarískrar ömmu sem snarar fram ekta New York-lasagna, svo eitthvað sé nefnt.

Tengdar fréttir

Enn og aftur útlendingur sem talar ekki málið

Menningarefni

Nafnið mitt ákveðið í reykmettuðu bakherbergi

Lærði listir á götunni

Menningarefni

Sinn er siður í landi hverju