Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Heyr himna smiður uppáhalds verk þjóðarinnar

Mynd: Skjámynd / RÚV

Heyr himna smiður uppáhalds verk þjóðarinnar

30.08.2018 - 09:38

Höfundar

„Það sem var allra vinsælast og það sem snertir einhverja djúpa taug í okkur Íslendingum er kórverk eftir Þorkel Sigurbjörnsson og heitir Heyr himna smiður,“ segir Halla Oddný Magnúsdóttir dagskrárgerðarkona. Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur flytur lagið á Klassíkinni okkar, stórtónleikum sem sýndir verða í beinni á föstudagskvöld klukkan 20, á RÚV og Rás 1.

Íslensk tónverk eru í öndvegi á Klassíkinni okkar, stórtónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem haldnir eru á föstudagskvöld í samstarfi við RÚV. Þar verða flutt eftirlætis íslensku tónverk þjóðarinnar samkvæmt netkosningu og er þemað 100 ára fullveldisafmæli. 

Er þetta þriðja árið sem tónleikarnir eru haldnir. Í fyrra var þemað eftirlætis óperuverk landans og í kosningu síðasta vor var Habanera úr Carmen valin vinsælasta óperuarían. Þá verða tuttugu íslensk verk á dagskránni á föstudag og auk Sinfóníuhljómsveitarinnar undir stjórn Daníels Bjarnasonar eru fjórir einsöngvarar og sex kórar meðal flytjenda. 

Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson dagskrárgerðarmaður á Rás 1 munu, líkt og í fyrra, leiða áhorfendur í gegnum dagskrá kvöldsins. Hún segir að á tónleikunum sé boðið upp á brot af því besta af íslenskum verkum. „Bæði verk og lög sem allir þekkja og geta sungið með heima hjá sér og svo brot af því besta frá síðustu áratugum í íslenskum hljómsveitarverkum,“ segir hún og bætir við: „Verk sem fólk kannski þekkir ekki en fær að kynnast og njóta.“

Mynd: RÚV / RÚV
Heyr himna smiður í flutningi Hamrahlíðarkórsins í útsendinu Klassíkurinnar okkar.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Eftirlætis íslensk tónverk landans

Klassísk tónlist

Hvert er besta íslenska tónverkið?