Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hertar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu

12.09.2017 - 01:50
epa06198865 The United Nations Security Council holds vote on sanctions resolution against North Korea  at United Nations headquarters in New York, New York, USA, 11 September  2017. The United Nations Security Council voted unanimously to pass a
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á mánudagskvöld einróma ályktun um hertar refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu, vegna viðvarandi eldflauga- og kjarnorkutilrauna þeirra. Bandaríkjamenn sömdu ályktunina og lögðu hana fram í ráðinu, með nokkrum breytingum frá fyrstu drögum til að tryggja stuðning Rússa og Kínverja. Er þetta níunda skiptið sem Öryggisráðið samþykkir refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu frá árinu 2006, en þá gerðu Norður-Kóreumenn sína fyrstu tilraun með kjarnorkusprengju.

Ályktunin kveður meðal annars á um algjört bann við útflutningi vefnaðarvöru, sem er önnur helsta útflutningsvara Norður-Kóreu, og takmarkanir á sölu jarðolíueldsneytis til landsins.

Norður-Kóreu bannað að flytja út 90% af útflutningsvöru sinni

Í fyrstu drögum að ályktuninni var kveðið á um algjört bann við sölu á olíu og gasi til Norður-Kóreu, en frá því var horfið. Þess í stað er leyfilegt magn hreinsaðs eldsneytis sem flytja má til landsins skert um rúman helming, sem þýðir að heildarmagn jarðolíuafurða sem flytja má þangað skerðist um þriðjung. Nær 80 prósent norður-kóreskrar vefnaðarvöru eru seld til Kína, og þaðan kaupa Norður-Kóreumenn einnig bróðurpartinn af olíuvörum sínum.

Með samþykkt þessara nýjustu viðskiptahafta ofan á þau sem fyrir voru er búið að banna útflutning um 90 prósenta af öllum þeim varningi, sem vitað er til að Norður-Kóreumenn hafi flutt út á síðastu árum, en þar vega þyngst kol, vefnaðarvara, járn og sjávarfang.

Ályktunin milduð til að forðast neitunarvald Rússa og Kínverja

Meðal þess sem fellt var út úr lokaútgáfu ályktunarinnar var, auk kröfunnar um algjört olíusölubann, krafan um frystingu persónulegra eigna Kim Jong Uns, leiðtoga Norður-Kóreu, í öðrum löndum, og krafa um hálfgildings hafnbann. Í því fólst heimild til herskipa allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna til að stöðva skip á leið til og frá Norður-Kóreu, sem grunur léki á að hefðu ólögmætan varning um borð, og til að beita hverjum þeim meðulum sem nauðsynleg kynnu að reynast til að komast um borð í þau skip og framkvæma leit.

Verða að hætta kjarnorku- og eldflaugatilraunum

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir Bandaríkin hafa gefist upp á því að reyna að fá Norður-Kóreumenn til að breyta rétt; markmiðið nú sé einungis að fá þá til að hætta að breyta rangt. Hún segir Bandaríkin ekki vilja fara í stríð við Norður-Kóreu og enn sé svigrúm til samninga. „Ef þeir hætta með kjarnorkuáætlun sína, geta þeir endurheimt framtíð sína. Ef þeir sýna fram á að þeir geti lifað í friði við umheiminn, mun umheimurinn lifa í friði við þá," sagði Haley þegar hún ávarpaði Öryggisráðið eftir að það samþykkti ályktunina. 

Sendiherra Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, Liu Jieyi, hvatti stjórnvöld í Pjongjang til að taka væntingar og vilja alþjóðasamfélagsins alvarlega og hætta kjarnorku- og eldflaugatilraunum sínum. Þá hvatti hann alla deiluaðila til að halda haus og kynda ekki undir frekari deilum, heldur hefja samningaviðræður sem allra fyrst.

Bandaríkin og Suður-Kórea hætti heræfingum á Kóreuskaga

Kínverjar og Rússar hafa lagt hart að helstu deiluaðilum; Kóreuríkjunum tveimur og Bandaríkjunum, að hætta öllu hernaðarbrölti. Forsenda þess að hægt sé að ná samningum og tryggja frið á Kóreuskaga sé að Norður-Kórea hætti kjarnorku- og eldflaugatilraunum sínum, en Bandaríkin og Suður-Kórea láti jafnframt af reglulegum og umfangsmiklum heræfingum sínum nærri landamærum Kóreuríkjanna. Vassily Nebensia, sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, undirstrikaði þetta þegar hann ávarpaði Öryggisráðið.