Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hertar öryggiskröfur kalla á tvöföldun

21.08.2018 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vegagerðin skoðar nú að tvöfalda Hvalfjarðargöng til að bæta öryggi vegfarenda. Skortur á neyðarútgöngum og hertar öryggisreglur kalla á framkvæmdirnar, en kostnaðurinn gæti hlaupið á fjórtán til tuttugu milljörðum.

Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun ellefta júlí 1998 og urðu því tuttugu ára í sumar. Öryggisreglur í jarðgöngum hafa verið hertar umtalsvert frá því göngin voru hönnuð en undanfarið hefur Vegagerðin, í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit, skoðað nokkrar mismunandi leiðir til að tvöfalda göngin. Skortur á neyðarútgöngum kallar á tvöföldun ganganna. Samkvæmt Evrópureglugerð er leyfileg hámarksumferð um göng án neyðarútganga átta þúsund bílar á dag. Nú aka að meðaltali sjö þúsund bílar um Hvalfjarðargöngin á hverjum degi, og því ljóst að ráðast þarf í framkvæmdir á næstu árum. 

„Það held ég að sé nokkuð ljóst að það verður komið upp í átta þúsund bíla eftir fimm ár miðað við þessa umferðaraukningu sem hefur verið undanfarin ár. Til þess að uppfylla þessa reglugerð þarf að bæta við öðrum göngum við hlið þessara ganga,“ segir Matthías Loftsson, jarðverkfræðingur hjá Mannviti og einn höfunda skýrslu um tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Allar tillögurnar gera ráð fyrir að göngin verði lengri og breiðari en núverandi göng, og með minni veg-halla. En framkvæmdirnar verða kostnaðarsamar. Kostnaðurinn hleypur á 14 - 20 milljörðum, eftir því hvaða leið verður farin. Matthías segir að það sé ekki síst út frá öryggissjónarmiðum sem brýnt sé að tvöfalda göngin.

„Til þess að minnka þá hugsanlega slysatíðni. Og þá aðalllega hættu á stórslysi sem væri þá hugsanlega vegna bruna í göngunum, eða einhverju slíku,“ bendir hann á.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær verður ráðist í umbætur á Hvalfjarðargöngum en Matthías segir ljóst að undirbúningurinn taki nokkur ár. Göngin séu að vissu leyti barn síns tíma. 

„Það má segja það kannski. Þau eru búin að nýtast vel og duga vel. En reglurnar hafa breyst og það þarf kannski að uppfæra hlutina líka í samræmi við það.“