
Hermenn beittu táragasi gegn flóttafólki
Flóttamennirnir komu úr hópi um 3.500 manna úr Mið-Ameríku. Fólkið kom sér fyrir í Gvatemala, við bakka árinnar Suchiate, snemma í gærmorgun. Það krafðist þess að innflytjendayfirvöld í Mexíkó leyfðu þeim að halda för sinni áfram enn norðar, til Bandaríkjanna. Þar sem ekkert svar barst ákvað hluti af hópnum að láta reyna á að komast yfir ána. Eins og áður segir svöruðu þjóðvarðliðar við landamærin með táragasi, sem hrakti fólkið til baka. Tugir flóttamanna brugðust reiðir við og hófu að grýta herlögregluna við landamærin með stórum steinum, sem lögreglan varðist með óeirðarskjöldum. Um 200 tókst að brjóta sér leið í gegnum öryggishlið á landamærunum, en þau voru öll handtekin að sögn yfirvalda. Mexíkósk yfirvöld kveðast reiðubúin að taka á móti fólki frá Mið-Ameríku, svo framarlega sem það kmeur á lögmætan og öruggan hátt.
Hert gæsla að beiðni Bandaríkjanna
Þetta er í fyrsta sinn sem yfirvöld í Mexíkó halda hópi flóttamanna frá landamærunum. Fjölmennir hópar hafa reglulega lagt leið sína frá ríkjum Mið-Ameríku í átt til Bandaríkjanna. Flestir flóttamannanna eru að flýja mikla fátækt og gróft ofbeldi glæpagengja í El Salvador, Gvatemala og Hondúras.
Donald Trump Bandaríkjaforseti krafðist þess í fyrra að Mexíkó gerði meira til þess að koma í veg fyrir að flóttamennirnir kæmust að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Hann kallaði komu þeirra innrás, og hótaði Mexíkó innflutningstollum ef ríkið yrði ekki við kröfum Bandaríkjastjórnar. Mexíkó svaraði með því að senda um 26 þúsund hermenn að syðri landamærum sínum. Einnig leyfðu mexíkósk stjórnvöld Bandaríkjunum að senda yfir 40 þúsund umsækjendur um alþjóðlega vernd aftur til Mexíkó á meðan mál þeirra væri til meðferðar í Bandaríkjunum.