Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Herjólfur verður „plan B“ fyrir nýja Eyjaferju

31.05.2016 - 23:37
Mynd með færslu
Herjólfur við bryggju í Landeyjahöfn. Mynd úr safni. Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Fjárlaganefnd Alþingis telur ekki rétt að selja Herjólf fyrr en reynsla verður komin á nýja Eyjaferju. Nefndin nefnir í áliti sínu að sérstaklega sé erfitt að spá fyrir um hve mikið þurfi að dýpka Landeyjahöfn. Að öðru leyti leggur nefndin blessun sína yfir smíði nýrrar ferju og telur að þar sem margar skipasmíðastöðvar séu verkefnalitlar þessi misseri ættu að vera ágætir möguleikar á hagstæðum samningum.

Útboð á nýrri ferju sem ætlað er að sigla milli lands og eyja var kynnt í ríkisstjórn um miðjan þennan mánuð.  Í ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að kostnaður við smíði ferjunnar verði í kringum 4,8 milljarðar. 

Frumvarp um útboðið var síðan lagt fram viku seinna. Þar kom fram að árlegur rekstrarkostnaður við nýja ferju gæti lækkað verulega eða um 150 til 200 milljónir. Þá gæti ríkið sparað sér 50 milljónir á ári í dýpkunarframkvæmdir. 

 

Mynd með færslu
 Mynd:
Nýja Eyjaferjan.

Í nefndaráliti fjárlaganefndar kemur fram að með nýrri ferju muni þjónusta við Vestmannaeyjar batna - ferðum fjölgi um tvær á viku yfir sumartímann auk þess sem gert sé ráð fyrir að sumartímabilið verði lengt um einn mánuð. Nefndin telur allan undirbúning verið vandaðan og viðunandi. 

Nefndin reiknar með að útboð verði auglýst á EES-svæðinu í sumar, opnað verði fyrir tilboð í haust og að fyrri hluti næsta vetrar verði nýttur til að velja á milli skipasmíðastöðva og ganga til samninga. Smíðin sjálf muni taka eitt og hálft ár. 

Þrátt fyrir að nefndin leggi til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt mælist hún til þess að Herjólfur verði ekki seldur strax. Margir óvissuþættir tengist siglingu nýrrar ferju til Landeyjahafnar og því sé ekki hægt að koma Herjólfi í verð fyrr en reynsla verði komin á nýju ferjuna.