Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Herbúðir reistar á rústum þorpa Róhingja

12.03.2018 - 09:44
Erlent · Asía · Róhingjar
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Herinn í Mjanmar hefur reist herbúðir og öryggismannvirki á svæðum í Rakhine héraði á rústum þorpa Róhingja múslima þar sem heimili fólks voru brennd til grunna í fyrra. Mannréttindasamtök segja að verið sé að ræna landi Róhingja og eyðileggja sönnunargögn um glæpi gegn mannkyni. 

Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International segja að herinn sé nú með byggingar framkvæmdir þar sem hermenn frömdu fjöldamorð og beittu nauðgunum til þess að hrekja íbúana á brott í þjóðernishreinsunum í fyrra.

Amnesty segir í nýrri rannsóknarskýrslu að her Mjanmar sé nú í framhaldi af fjöldamorðum og þjóðernishreinsunum að ræna landi Róhingja. Amnesty hefur lagt fram gervihnattarmyndir máli sínu til stuðnings auk vitnisburðar sjónarvotta. Samtökin segja að verið sé að eyðileggja sönnunargögn fyrir glæpum gegn mannkyni sem framdir voru á Róhingjum. Jarðýtur séu notaðar til að ryðja burtu rústum húsa og þorpa þar sem herinn reisi ný mannvirki.

Nærri því 700 þúsund Róhingja múslimar voru hraktir frá heimilum sínum og yfir landamærin til Bangladess þar sem fólkið hefst við í flóttamannabúðum við ömurlegar aðstæður.

Stjórnvöld í Mjanmar og Bangladess náðu í janúar samkomulagi um áætlun sem átti að tryggja að flestir Róhingjar gætu snúið aftur til síns heima innan tveggja ára. Margir hafa þó efasemdir um að öryggi fólksins sé tryggt og Amnesty skýrslan sýnir að herinn sé að koma sér fyrir á svæðunum þar sem sem Róhingjar bjuggu.