Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heræfing sögð líkjast sögu Tom Clancy

16.10.2018 - 05:15
Innlent · NATO
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sovéskur her ræðst inn í Ísland og rústar herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Nokkurn veginn þannig hefst bók Tom Clancy frá 1986, Rauður stormur. Bandaríkjaher nær aftur völdum á herstöðinni með árásum sjóhersins. Hljómar nokkuð langsótt, en samkvæmt bandarísku herfréttasíðunni Marine Corps Times er heræfingin sem hefst hér á landi á næstunni æfing fyrir sams konar aðstæður. 

Æfingin hér á landi er forsmekkurinn af enn stærri æfingu Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Noregi. Hér á landi verður æfð aðkoma frá sjó, áður en stóra æfingin hefst að sögn Marine Corps Times. Þar er spurt hvort hluti æfingarinnar hér sé í raun skilaboð til Rússa um að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið verji Ísland ef Rússum skyldi detta í hug að hertaka landið.

Fobert B. Neller, liðsforingi í bandaríska sjóhernum, var spurður út í samanburðinn við bók Clancys á blaðamannafundi í síðustu viku. Hann sagðist ekki vilja láta draga sig út í slíkar vangaveltur.

Marine Corps Times greinir frá því að Phillip Petersen, sem sérhæfir sig í aðgerðum rússneska, og áður sovéska, hersins, hafi lagt fram skýrslu til bandaríska varnarmálaráðuneytisins árið 2014 um það hvernig Rússar gætu ráðist á ríki Skandinavíu og nyrsta hluta Evrópu, og hvernig Atlantshafsbandalagið gæti varist slíkri árás. Í skýrslunni greinir Petersen frá því að Rússar gætu laðast að Íslandi vegna stöðu landsins, og þeir gætu jafnvel látið verða af því að ráðast inn og hertaka landið. Þannig myndu þeir búa sér til stórt umráðasvæði í Atlantshafi fyrir sjó- og kafbátaher sinn.
Von er á um tvö þúsund hermönnum til Íslands vegna æfingar Atlantshafsbandalagsins. Nærri 40 þúsund taka svo þátt í heræfingunni í Noregi.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV