Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Héraðssaksóknari ákærir Júlíus Vífil

17.08.2018 - 09:33
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendi Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa. Í ákæru sem vefmiðillinn Kjarninn segir frá er honum gefið að sök peningaþvætti. Hann er fyrsti einstaklingurinn, sem getið er um í Panamaskjölunum, sem sætir ákæru.

Í Kastljósi í apríl 2016 var sagt frá því að Júlíus hefði í ársbyrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla hafi verið lögð á það að nafn Júlíusar Vífils yrði ekki í forgrunni félagsins heldur yrðu hlutabréf þess stíluð á handhafa en ekki á nafn hans. Hann viðurkenndi sjálfur tilvist aflandsfélagsins og sagði að tilgangurinn með stofnun hans hefði verið að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. Hann sagði stofnun aflandsfélagsins hafi hins vegar verið í samræmi við íslensk lög.

Systkini Júlíusar Vífils og erfingjar foreldra hans hafa sakað Júlíus, og Guðmund Ágúst Ingvarsson, um að hafa komið ættarauði foreldra þeirra undan og geyma hann á aflandsreikningum. Fjármunum sem þau þénuðu af rekstri bílaumboðsins Ingvars Helgasonar. Júlíus Vífill hefur lika neitað því.

Júlíus tjáir sig um ákæruna sem Kjarninn greinir frá í færslu á Facebook sem hann birti í morgun.

Þar segir hann að hann hafi verið sakaður um að fjármunir á erlendum reikningum væru illa fengnir. Héraðssaksóknari hafi kannað málið og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum. Hins vegar hafi honum verð birt ákæra sem snúi að skattamálum.

„Það kom á óvart og eru mér vonbrigði. Ég tel engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi,“ segir Júlíus Vífill.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV