Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Héraðsdómur hafnar kröfu Miðflokksmanna

19.12.2018 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um að fram fari gagnaöflunarvitnaleiðslur fyrir dómi í Klausturmálinu. Krafan var sett fram vegna hugsanlegrar málsóknar á hendur Báru Halldórsdóttur sem hefur gengist við því að hafa tekið upp samtöl þingmannanna hinn 20. nóvember.

Krafan fól í sér að leidd yrðu fyrir dóminn vitni sem tengjast veitingahúsinu, auk forsvarsmanna Alþingis og Dómkirkjunnar, einkum og sér í lagi til að spyrja þá hvort þeir hefðu myndupptökur. 

Málflutningur um kröfu Miðflokksmanna fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur að viðstöddu fjölmenni á mánudaginn. Stundin greindi fyrst frá niðurstöðu dómsins í morgun en Ragnar Aðalsteinsson, annar lögmanna Báru Halldórsdóttur, staðfestir fréttina í samtali við fréttastofu. 

Eftir niðurstöðuna hafa Miðflokksmenn nokkra möguleika í stöðunni. Í fyrsta lagi geta þeir áfrýjað niðurstöðu dómsins til Landsréttar. Í öðru lagi er nú þegar búð að kvarta til Persónuverndar, sem mun taka afstöðu til málsins. Í þriðja lagi geta Miðflokksmenn höfðað einkamál og í fjórða lagi er hægt að kæra birtingu upptakanna til lögreglu.  

Fréttin hefur verið uppfærð.