Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hera í stóru hlutverki í mynd með Kingsley

epa04609168 Icelandic actress Hera Hilmar, one of the 2015 European Shooting Stars, poses at the Ritz Carlton Hotel during the 65th annual Berlin International Film Festival, in Berlin, Germany, 08 February 2015. She will be awarded at the Berlinale on 09
 Mynd: EPA - DPA

Hera í stóru hlutverki í mynd með Kingsley

29.10.2015 - 08:49

Höfundar

Íslenska leikkonan Hera Hilmarsdóttir, sem gert hefur garðinn frægan í Bretlandi, leikur eitt aðalhlutverkanna í spennutryllinum An Ordinary Man þar sem mótleikari hennar verður Óskarsverðlaunahafinn Ben Kingsley. Hera leikur þjónustustúlku sem myndar samband við eftirlýstan stríðsglæpamann.

Greint er frá þessu í Hollywood Reporter. Leikstjóri myndarinnar er Brad Siberling en meðal annarra leikara er Peter Serafinowicz sem lék stórt hlutverk í kvikmyndinni Guardians of the Galaxy.

Kingsley leikur eftirlýstan stríðsglæpamann sem vingast við þjónustustúlku sem Hera leikur. Þegar leitin að honum virðist vera skila árangri áttar hann sig á því að eina manneskjan sem hann getur treyst er þjónustustúlkan. Ráðgert er að tökur fari fram í Belgrad í Serbíu.

Kvikmyndin hefur verið nokkuð lengi á teikniborðinu eða síðan 2009. Og upphaflega stóð til að Liam Neeson færi með hlutverk stríðsglæpamannsins.

Hera, sem hefur leikið í sjónvarpsþáttunum Da Vinci's Demons, er ekki fyrsti Íslendingurinn sem leikur á móti Kingsley - Gísli Örn Garðarsson lék skósvein hans í stórmyndinni Prince of Persia.