Varð ítrekað fyrir árásum
Samkynhneigð er refsiverð í Úganda. Samkynhneigðir geta átt yfir höfði sér margra ára fangelsisvist komist upp um kynhneigð þeirra. Hinsegin fólk óttast líka dómstól götunnar en Keneth segir viðhorf almennings til hinsegin fólks afar neikvæð, fyrir þeim sé samkynhneigð ósiður sem fólk þurfi að venja sig af, ekki órjúfanlegur hluti af því hver einhver er. Hinsegin fólk verði því að leyna kynhneigð sinni eða kynvitund. Hann varð ítrekað fyrir árásum af hálfu samlanda sinna, þeir tóku sig saman og réðust á hann. Í eitt skiptið kom hópur manna heim til hans, rifu hann út úr húsinu og börðu hann sundur og saman. Vinur hans fór þá með hann á spítala. Réttlæti múgsins, eru slíkar árásir kallaðar, mob justice. Borgarar taka lögin í eigin hendur. Í grein Deutsche Welle um málið frá árinu 2016 kemur fram að árið 2014 hafi 543 verið myrtir með þessum hætti í Úganda, Í Kenía skráði lögreglan slíkar óformlegar hóprefsingar ekki sérstaklega sem glæpi fyrr en árið 2011.
Hinsegin fólk var hrætt við að láta sjá sig með honum
Í þau fimm ár sem Keneth var á vergangi innan Úganda sótti hann ekki skóla að undanskildum einum mánuði. Hann hitti mann sem hjálpaði honum að komast á námskeið í því að koma fram í ljósvakamiðlum. Hann vann við sjónvarp í um það bil mánuð en segir að það hafi reynst of hættulegt, foreldrar hans hafi séð hann í sjónvarpinu og ofsóknir af hálfu þeirra aukist. Þeir hafi skipað fólki að hafa upp á honum.
Hann þótti alla tíð stelpulegur og segir að alla ævi hafi fólk sagt honum að hann væri samkynhneigður. Að lokum segir hann að vinir hans hafi snúið við honum baki, hinsegin fólk í Úganda hafi meira að segja neitað að hýsa hann eða láta sjá sig með honum þar sem það óttaðist um eigið öryggi, að hann kæmi upp um það eða drægi að því athygli vegna þess hvernig hann bar sig eða leit út. Þetta og óttinn við útsendara fjölskyldu hans varð til þess að hann ákvað að fara til Naíróbí, höfuðborgar Kenía, og sækja þar um hæli. Nánar tiltekið þann 28. febrúar árið 2015. Hann var þá tvítugur.
Missti félaga í Naíróbí og margir neyddust út í vændi
Í flóttamannabúðunum í Naíróbí tók þó ekki betra við, þvert á móti. „Öryggi hinsegin fóttafólks er ógnað í Kenýa,“ segir Keneth. Flóttamenn frá Úganda séu auðþekktir á hreimnum. Fólk hafi strax áttað sig á því að hann væri frá Úganda og samkynhneigður. Fordómarnir og hommahatrið hafi jafnvel verið meira en í Úganda og þar sem lögreglan beitir sér gegn samkynhneigðum hafi flestir úganskir flóttamenn úr hópi hinsegin fólks verið handteknir. Þá hafi margir verið áreittir, barðir og snertir með viðurstyggilegum hætti. Hann hafi misst marga félaga á þeim þremur árum sem hann dvaldi í Naíróbí. Hann átti erfitt með að útvega sér mat og það var enga vinnu að fá, fólk sagði honum að það væri ekki vinna í boði fyrir Keníamenn, hvers vegna ætti hann, samkynhneigður flóttamaður frá Úganda þá að fá vinnu, spyrði hvað hann væri eiginlega að gera þarna. Margir úr hópi hinsegin hælisleitenda frá Úganda hafi vegna þessa neyðst út í vændi til þess að hafa í sig og á.
Hann varð sjálfur fyrir alvarlegu ofbeldi í búðunum. Fólk úr búðunum barði hann og grýtti þar til hann var alblóðugur og hótaði að kveikja í honum. „Ég hélt það yrði mitt síðasta, það var versta stund lífs míns,“ segir Keneth.
Inniveran tók sinn toll
Hann segist hafa reynt að vera sem mest inni við til að verða ekki fyrir barsmíðum, öll inniveran hafi hins vegar tekið sinn toll andlega. Hann hafi ekki viljað deyja en á tímabili hafi hann samt óskað þess að hann hefði aldrei fæðst. Hann sá ekki fyrir sér að staða hans gæti breyst til betri vegar.
Tækifæri til að vera hann sjálfur
Boðið um að fá að fara til Íslands var kærkomið. Hann kynnti sér landið og hugsaði með sér að loksins fengi hann tækifæri til að vera hann sjálfur. „Sá sem ég vil vera. Svona er ég, þetta er ekki eitthvað sem ég neyði mig til að vera, ég er samkynhneigður og stoltur af því.“
Keneth er umhugað um stöðu hinsegin fólks í Úganda, segir að þeir sem ekki hafi flúið land, hafi ekki komið út úr skápnum og aðrir ekki sagt til þess, þeir geti ekki verið þeir sjálfir. Hann vonar að hann geti í framtíðinni vakið athygli á stöðu þessa fólks, talað máli þess og veitt því innblástur.
Annar hópur hinsegin flóttamanna
Á mánudaginn komu tíu flóttamenn frá Úganda til landsins, þeir eiga það sameiginlegt að vera hinsegin og hafa undanfarið dvalið í flóttamannabúðum í Naíróbí í Kenía. Þetta er í annað sinn sem stjórnvöld taka á móti hópi hinsegin flóttafólks, fyrsti hópurinn kom árið 2015. Flóttamannanefnd velferðarráðuneytisins hefur undanfarin ár lagt áherslu á að Ísland taki á móti viðkvæmum hópum flóttafólks, til dæmis einstæðum mæðrum og hinsegin fólki, í ljósi þess að staða þessara hópa er sterk hér miðað við víða annars staðar.
Valið úr tillögum Flóttamannastofnunar
Það hverjir fá að koma til landsins er ákveðið í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þegar flóttamannanefnd hefur gert stofnuninni grein fyrir áherslum Íslands og hversu mörgum stjórnvöld hyggjast taka á móti hverju sinni sendir stofnunin skýrslur nokkurs fjölda einstaklinga sem hún telur að komi til greina. Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu, segir að flóttamannanefnd fari yfir þessar skýrslur og velji úr, horfi til dæmis til þess hvort fólkið eigi einhverja ættingja hér á landi fyrir og til samsetningar hópsins, til dæmis þess að þetta séu einstaklingar með mismiklar þarfir, ekki allir í mjög mikilli þörf fyrir þjónustu. Áður en lokaákvörðun er tekin fara fulltrúar Útlendingastofnunar og alþjóðadeildar lögreglunnar yfir skýrslurnar, meðal annars í þeim tilgangi að tryggja að þeir sem hingað koma hafi ekki tekið þátt í stríðsátökum.
Víða refsivert að vera hinsegin
Í 77 ríkjum er samkynhneigð refsiverð og í sjö ríkjum liggur við henni dauðarefsing; Íran, Súdan, Sádí Arabía og Jemen eru þar á meðal. Það er ekki nýtt að hinsegin fólk sæti ofsóknum víða um heim en á síðastliðnum áratugum hefur hinsegin fólk í auknum mæli sótt um alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum. Í Flóttamannasáttmálanum er ekki kveðið sérstaklega á um réttindi hinsegin fólks en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint hinsegin fólk á flótta sem viðkvæman hóp sem getur átt rétt á stöðu flóttamanns vegna raunhæfs ótta við ofsóknir í heimalöndum sínum. Í sáttmálanum eru skilgreindir fimm þættir en einhver þeirra þarf að teljast grundvöllur ofsókna svo einstaklingur fái vernd, þeir eru; trúarbrögð, kynþáttur, þjóðerni, stjórnmálaskoðanir og það að tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi. Hinsegin fólk sem fær vernd fellur yfirleitt í síðast nefnda flokkinn.
Ekki svo langt síðan Íslendingar flúðu