Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Hér er ekki hundi út sigandi“

02.12.2015 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þorgeir Gunnarsson
Vonskuveður er nú víða á Austur- og Norðausturlandi með tilheyrandi ófærð. Á Raufarhöfn er mjög vont veður og lítið skyggni. Þar voru foreldrar beðnir að sækja börnin í grunn- og leikskóla.

Gunnar Páll Baldursson, hafnarvörður á Raufarhöfn, var nýkominn inn úr bylnum þegar fréttastofa náði tali af honum rétt fyrir fjögur. „Það var einhverntíma eftir ellefu þegar það rauk upp hérna með snjókomu. Það var bara rigning í morgun en svo snéri hann sér í norvestan með snjókomu og blindbyl.“

Gunnar segir götur í þorpinu illfærar og fáir séu á ferðinni. „Við fórum bara heim um hádegi. Skólanum var lokað og foreldrarnir látnir sækja börnin. Í augnarblikinu er bara blindbylur og bara ekki hundi út sigandi. Og ekki okkur heldur!“

Uppfært 3. desember.
Birna Björnsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Raufarhafnar, segir það misskilning að skólanum hafi verið lokað. Foreldrar hafi verið beðnir að sækja börn sín að skóla loknum, þar sem ekki þótti óhætt að senda yngstu börnin ein heim. Þá hafi foreldrar leikskólabarna hafi verið beðnir að sækja þau um kl. 15:00 þar sem þungfært var orðið í þorpinu.