Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hér á hálfkák ekki séns

Mynd: RÚV/EPA / RÚV/EPA

Hér á hálfkák ekki séns

18.04.2019 - 13:00

Höfundar

Þorleifur Örn Arnarsson segir að Volksbühne í Berlín sé það leikhús sem hefur haft mest áhrif á hann um ævina, fyrir utan þjóðleikhúsið á Íslandi. „Það sem gerir Volksbühne svo einstakt er að þú skynjar það í fjölunum í gólfinu hvað hefur átt sér stað hér.“

Volksbühne-leikhúsinu var stjórnað í 25 ár af Frank Castorf, mesta áhrifamanni í leikhúsheimi Þýskalands. Árið 2015 tók Chris Dercon við leikhúsinu, en hann hafði fram að því verið yfirmaður Tate-safnsins í London. Tíð hans hjá leikhúsinu var vægast sagt stormasöm og hætti hann störfum áður en ráðningartímabilinu lauk í apríl 2018. Ráðning Dercons er einhvert mesta klúður í leiklistarsögu Þýskalands, segir Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri, sem nýverið var ráðinn stjórnandi hjá leikhúsinu, í samtali við Mikael Torfason í útvarpsþættinum Frumsýning, sem fluttur var á Rás 1 á skírdag.

Þegar Dercon lét af störfum tók Klaus Dörr, þáverandi framkvæmdastjóri leikhússins í Stuttgart, við Volksbühne-leikhúsinu. „Ég var einn af þeim fyrstu sem hann hringir í og samstarf okkar hófst mjög skömmu eftir það,“ segir Þorleifur. Dörr tjáði honum að hann þyrfti að hafa listamann í fremstu línu með sér og bauð Þorleifi að gerast yfirmaður leikhúsmála. „Hann rekur áfram leikhúsið, enda þarf gríðarlega uppbyggingarstarfsemi. Því þó Frank Castorf hafi verið stórkostlegur listrænn stjórnandi þá var hann kannski ekki endilega besti innviðastjórnandinn.“

Til stendur að Þorleifur setji þar á svið þrjár leiksýningar á næstu þremur árum. „Við ætlum okkur að koma þessu leikhúsi aftur í fremstu röð í Evrópu.“ Leiksýning Þorleifs og Mikaels, Edda, verður sýnd þar um páskana.

Sviðið refsar jafn fljótt og það lyftir

„Þetta leikhús hefur alltaf sogað til sín mest radikal listamenn hvers tíma,“ segir Þorleifur. „Það sem gerir Volksbühne svo einstakt er að þú skynjar það í fjölunum í gólfinu hvað hefur átt sér stað hér. Þú horfir út í þennan sal, hann virðist ekki svo stór, samt sitja hérna næstum þúsund manns, og þú finnur það bara. Maður hvíslar þegar maður kemur hingað, ekki vegna þess að maður er svo uppnuminn, heldur þarf maður að halda vel utan um kraftinn sinn hér. Þetta svið það refsar jafn fljótt og það lyftir. Hér á hálfkák ekki séns.“

epa07043985 An exterior view of the Volksbuehne Theater (People's Theatre) with the 'Raeuber-Rad' (lit: Thief's Wheel), designed by artist Rainer Haussmann and constructed by Bert Neumann, in Berlin, Germany, 24 September 2018. For 25 years the metal sculpture had been the landmark of the Berlin theater 'Volksbuehne', until it was removed in 2017 in the course of an artist director's change. On 24 September 2018 the wheel was reinstalled with new feet and improved statics.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA
Volksbühne-leikhúsið í Berlín.

Þorleifur hefur leikstýrt á fimmta tug leiksýninga á þeim ellefu árum sem liðið hafa frá því hann útskrifaðist úr leikhússkóla Ernst Busch í Berlín. „Þetta er algert rugl,“ segir hann, enda tæplega fimm sýningar á ári, „ég ætla nú að hætta því líka.“

„Mér verður oft hugsað til sögunnar af þúsundfætlunni. Einhvern tímann var hún spurð, hvernig geturðu labbað með þúsund fætur? Það er ekkert mál, svaraði hún, fyrst færi ég fremstu vinstri löppina, síðan fremstu hægri löppina. Síðan dokaði hún við og gat aldrei labbað aftur. Ég held að líf mitt sé að mörgu leyti svipað. Ef ég reyni að útskýra skref fyrir skref hvernig maður fer að þessu þá mundi ég kannski ekki geta þetta lengur.“

Þorleifur segir að djúpstæð þörf fyrir því að endurspegla samfélagið og tímana sem við búum við knýi hann áfram í starfinu. „Ég fæ útrás fyrir þessa þörf í leikhúsinu. Ég hef eiginlega aldrei séð mig sem leikstjóra. Mér finnst ég miklu frekar vera listamaður sem vinn í leikhúsformi. Margt við að vera leikstjóri finnst mér eiginlega einhvers staðar á bilinu leiðinlegt til óþægilegt. Ég hef enga ánægju af því að aðrir uppfylli hugmyndir mínar. Ég hef ánægju af því að vera í skapandi samtali við hugmyndir annarra. Leikhúsið er frábært fyrir þannig manneskju því leikhúsið getur ekki verið til nema þar sem margir hugar koma saman.“

Hægt er að hlusta á samtal Mikaels Torfasonar og Þorleifs Arnar í heild sinni hér:

Mynd: RÚV / RÚV

Tengdar fréttir

Leiklist

Þorleifur ráðinn stjórnandi í Volksbühne

Leiklist

Sækir um stöðu þjóðleikhússtjóra í Noregi

Leiklist

Ótrúlega gaman að þessi sýning springi út

Klassísk tónlist

Andsvarið við Niflungahringnum