Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Heppin” að greinast með fíkn

16.09.2018 - 19:28
Móðir á Akureyri efast um að dóttir hennar væri á lífi ef hún hefði ekki fengið fíknigreiningu og þá þjónustu sem henni fylgdi. Framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala segir að fjölga þurfi legurýmum, en SÁÁ er með fleiri rúm á sínum vegum en báðar geðdeildir landsins.

Allt annað viðmót eftir fíknigreininguna

Dóttir Hildu Jönu Gísladóttur var fyrir nokkrum árum lögð inn á geðdeild á Akureyri vegna sjálfsvígshættu, þunglyndis og kvíða. Hilda Jana segir að kerfið hafi ekki sinnt dóttur hennar nægilega fyrr en hún var greind með fíkn.

„Þess vegna hef ég sagt, í kaldhæðni að sjálfsögðu, að ég hafi verið svo heppin að hún varð fíkill. Því þegar hún greinist með fíkn tekur við allt annað viðmót, allt önnur þjónusta, ekki bara við hana heldur okkur sem fjölskyldu.”

Hún fór fór á Vog, í eftirmeðferð, göngudeild og vist á áfangaheimili. 

„Ég held að það sé alveg hundrað prósent á Íslandi að þú færð mun betri þjónustu sem einstaklingur ef þú greinist með fíkn og ferð í gegn um ferli hjá SÁÁ heldur en nokkurn tímann ef þú ert að glíma við geðsjúkdóm,” segir Hilda Jana.

Fráhvörf geta blekkt

Allir eru sammála um að fíknivandi sé alvarlegur. Sérfræðingar benda þó á að greiningar þurfi að vanda, þar sem fíknin er lúmsk og hún getur blekkt, ekki bara sjúklingana, heldur líka aðstandendur þeirra og heilbrigðisstarfsfólk.

„Við fáum inn fólk sem er mjög dapurt, með alvarlegar sjálfsvígshugsanir og síðan þegar fólk er komið í gegnum fráhvörfin, þá raunverulega hverfa þessi einkenni,” segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans. 

Fleiri rúm hjá SÁÁ en á báðum geðdeildum landsins

Stofnanir SÁÁ: Vogur, Vík og Vin, eru með fleiri rúm en geðdeildir Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri til samans. SÁÁ er með 143 rúm, geðdeildirnar samtals 120 rúm. Í fyrra lögðust 1.700 manns inn á Vog en rúmlega 1.500 inn á geðdeildirnar.  

Fjöldi rúma segir þó ekki allt, því dagþjónusta, göngudeildir og þjónusta í nærumhverfi er ekki síður mikilvæg. Samstarf ríkisspítalanna og SÁÁ er mikið, enda er inniliggjandi meðferð fyrir fólk með fíkn oftast nauðsynleg. 

„Og það er ekki lengur slíkt í boði frá Landspítalanum, sem þeir höfðu áður, og ég er fullviss um að þar vill fólk líka gera meira,” segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. María tekur undir það og bendir á að rúm á geðdeildunum hafi verið helmingi fleiri fyrir aldamót og nú sé vandinn orðinn það stór að nauðsynlegt sé að fjölga rúmum aftur, en þó þurfi ekki að tvöfalda þau. 

200 milljónir næðu utan um biðlistann

Staða SÁÁ er sérstök. Samtökin virðast leika lykilhlutverk í heilbrigðiskerfi landsins og reiða sig að stærstum hluta á ríkisframlög, en þurfa þó einnig að stóla á almenning til að ná endum saman. Ríkið veitir ekkert fé í rekstur til göngudeildanna, enda verður þeirri deild samtakanna á Akureyri lokað um áramót. Nú bíða hátt í 600 manns eftir innlögn á Vogi og segir Valgerður að það kosti um 200 milljónir í viðbót að eyða þeim lista. 

„Ef við fengjum á Vogi tækifæri að taka inn ekki sex á dag alla daga ársins, heldur sjö eða átta alla daga ársins, þá gætum við náð þessum kúf,” segir hún. 

Það kostaði 1,3 milljarða að reka Vog og Vík 2017. SÁÁ fékk 919 milljónir á fjárlögum en 400 milljónir komu frá almenningi.  

„Hvert á fólk þá að leita?”

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir Vog í raun eina staðinn fyrir fólk með fíkn. Það sé með ólíkindum að yfirvöld komi SÁÁ ekki betur fyrir innan kerfisins.

„Stjórnvöld hafa enga heildarstefnu, það sem ég er að benda á er að hún er ekki til. Það þarf að setja saman heildarstefnu í heilbrigðismálum, það þarf að skilgreina heilbrigðiskerfið og skilgreina hvaða hlutverk einstakur þáttur þess á að sinna,” segir Kári og metur þjónustu SÁÁ lífsnauðsynlega fyrir heilbrigðiskerfið í dag. „Ég held að það yrði ótrúlega mikill harmleikur ef þessari aðstöðu yrði lokað. Hvert á fólk þá að leita? Það getur ekki leitað neitt.”

Hilda Jana tekur undir þetta og segir skekkjuna í heilbrigðiskerfinu geta verið lífshættulega. 

„Ég er ekkert viss um að hún væri á lífi ef hún hefði ekki verið svo heppin að vera fíkill og fá alla þessa aðstoð,” segir hún. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV