Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Henni fannst ég myndarlegur“

Mynd:  / 

„Henni fannst ég myndarlegur“

06.01.2019 - 12:44

Höfundar

Kristinn Jón Guðmundsson flutti heim til Íslands fyrir um þremur árum, eftir að hafa búið ólöglega í Bandaríkjunum í þrjátíu ár. Hann starfar nú sem bréfberi hjá Póstinum og er einn af viðmælendum í Paradísarheimt sem hefur göngu sína á RÚV í kvöld.

Kristinn neitar því fyrst að hann lendi í rómantískum ævintýrum í starfi sínu, en rifjar svo upp þegar honum var boðið inn á dögunum. „Já í kaffi og kökur, af frú frá Böðmóðsstöðum á Laugavatni. Hún er ein af systrunum. Frændi minn var giftur inn í ættina.“ Hún var að sögn Kristins búin að bjóða honum nokkrum sinnum kaffi sem hann þáði á endanum, í íbúð á Skúlagötu með útsýni yfir Esjuna. „Henni fannst ég myndarlegur. Það eru alltaf eldri konurnar sem segja það.“

Hann vill þó ekki meina að hún hafi „fallið“ fyrir sér. „Ég veit það ekki. En hún sagði „voðalega myndarlegur maður“.“ Þú ert maður einsamall? „Jú, eins og Sherlock Holmes. Ég held það fari bara best á því.“ Kristinn langaði þó einu sinni að eignast fjölskyldu. „Jú. Þegar maður var ungur og smáborgaralegur. En það er svona við og við á þessum rúnti, sem ég fer núna, þá hlakkar mig til að sjá einar þrjár, fjórar. Stúlkur. Á hverjum degi. En ég vil ekki segja hverjar þær eru.“

Hægt er að sjá brot úr viðtalinu við Kristin Jón Guðmundsson í spilaranum hér að ofan. Fyrsti þáttur þriðju seríu Paradísarheimtar er á dagskrá RÚV sunnudagskvöldið klukkan 20:35. Hér má svo finna ítarlegt viðtal Kastljóss við Kristin Jón frá árinu 2017.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég hef ekki einu sinni læk!“

Mannlíf

„Þegar ég geri þetta fannst mér engin leið út“

Mannlíf

Mjög harður heimur þó að við séum á Íslandi

Mannlíf

„Go West, young man!“