Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hendum 70 milljón plastpokum á ári

13.04.2014 - 20:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar henda um það bil 70 milljón plastpokum á hverju ári. Langstærstur hluti plastpokanna er urðaður, en niðurbrot plastpoka tekur mörg hundruð ár.

Plastpokarnir geta verið allt að þúsund ár að brotna niður í náttúrunni. Þeir plastpokar sem fjúka út í veður og vind geta velkst um öldum saman í náttúrunni, á sjó eða landi.

„Sumt plast inniheldur skaðleg efni, sem getur þá haft áhrif á lífríkið í kring,“ segir Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu. „Auk þess sem plastagnir geta haft áhrif á lífríkið beint.“

Kjartan segir mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um skaðsemi plasts í náttúrunni.

„Síðan þurfa stjórnvöld að einhverju leyti að grípa til einhverra aðgerða til þess að draga úr þessari notkun, hvernig svosem þær aðgerðir verða, hvort sem það verður með aukinni skattheimtu til þess að draga úr notkuninni eða að banna að einhverju leyti eða takmarka notkun plastpoka,“ segir Kjartan.

Flestir nota innkaupapokana úr búðinni undir heimilissorp, og henda þeim í ruslið. Þeir eru svo urðaðir ásamt heimilissorpinu. Í skýrslu umhverfisráðuneytisins um meðhöndlun úrgangs kemur fram að gera má ráð fyrir að Íslendingar fleygi árlega um 70 milljónum plastpoka.

Ef við myndum leggja pokana hlið við hlið á jörðina, myndu þeir þekja 14 ferkílómetra svæði, sem jafngildir því að þekja Reykjavík frá Tjörninni yfir í Elliðavog, inn í Elliðaárdalinn, yfir að flugvellinum í Skerjafirði og heim að Tjörninni aftur. Hafnafjörður og Garðabær hafa ákveðið að sporna við notkun plastpoka, til dæmis með því að afhenda fjölnotapoka til bæjarbúa.