Hélt syninum leyndum í sextíu ár

26.12.2017 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: Viktoría Hermannsdóttir - Facebook
„Hann sagði mér á dánarbeðinu að hann hefði átt barn á Íslandi,“ segir David Balsam um föður sinn Roderick Donald Balsam, eða Rod eins og hann var jafnan kallaður.

Fjallað verður um leit Davids að hálfbróður sínum í þættinum Á ég bróður á Íslandi? sem fluttur verður á Rás 1 klukkan 14.00 í dag, á öðrum degi jóla.

Sagt var frá því fyrir nokkrum vikum síðan að David væri að leita að mögulegum hálfbróður sínum á Íslandi. Faðir Davids var hermaður Bandaríkjahers í seinni heimstyrjöldinni og eignaðist son á Íslandi í kringum 1944 til 1945, eftir því sem David best veit.

Hann frétti fyrst af þessum mögulega bróður sínum fyrir um sjö árum síðan - rétt áður en faðir hans lést. Faðir hans sagði honum þá að móðir drengsins sem hann ætti á Íslandi hefði heitið Guðbjörg Tómasdóttir. Hann hefði ekki haldið sambandi við hana og vissi því ekkert um örlög drengsins. David segir að faðir hans hafi aldrei talað um soninn á Íslandi við fjölskylduna sína, fyrir utan að hann sagði eiginkonu sinni frá honum. 

„Nei, hann gerði það aldrei. Hann sagði mér aðeins frá tíma sínum í hernum áður en hann fór til Íslands en hann talaði aldrei um tíma sinn á Íslandi. Eina sagan sem ég hef heyrt frá Íslandi er þessi sem hann sagði mér rétt áður en hann dó ― að hann ætti barn þar. Ég vissi ekkert,“ segir David. 

Þátturinn, sem er sjálfstætt framhald Ástandsbarna, verður fluttur í dag klukkan 14 á Rás 1.

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi