Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hélt áfram að lána þrátt fyrir viðvaranir

02.07.2013 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúðalánasjóður hélt áfram að lána til íbúðakaupa og bygginga í Reykjanesbæ þrátt fyrir viðvaranir og efnahagshrun. Fjölgun íbúða var mun meiri en fjölgun íbúa í bænum á árunum 2003 til 2010, og mun meiri en annars staðar á landinu.

Sérstaklega er fjallað um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til Reykjanesbæjar í skýrslu Rannsóknarnefndar. Árið 2009 lánaði sjóðurinn tæplega 5 milljarða króna til íbúða í bænum. Rúmlega fjörutíu prósent 42% þeirra lána voru til íbúða sem sjóðurinn eignaðist síðar á uppboði vegna vanskila. 

Byggingarstarfsemi var meiri á Suðurnesjum á uppgangstímanum fram að hruni bankanna en annars staðar á landinu. 2003 til 2010 fjölgaði íbúðum í Reykjanesbæ um tæplega 3.500, eða 77%. Bæjarbúum fjölgaði á sama tíma um rúm 3.000, eða um 29%. Fólksfjölgun var því hvergi nærri á við fjölgun íbúða. Alls veitti sjóðurinn tæplega 3.400 lán til íbúðakaupa í Reykjanesbæ á árunum 2005-2009, þar af 900 lán til kaupa á nýjum íbúðum. Lánsfjárhæðin var um 32 milljarðar króna. Íbúðalánasjóður leysti síðar til sín íbúðir sem nemur rúmum fjórðungi lánsfjárhæðarinnar frá þessum tíma, eða að upphæð átta og hálfan milljarð króna.

Árið 2010 var fimmtungur heimila á Suðurnesjum með lán í vanskilum en þá var landsmeðaltalið 10%. Íbúðalánasjóður hélt áfram lánveitingum þrátt fyrir viðvaranir og efnahagshrunið, en árið 2009 lánaði sjóðurinn tæplega 5 milljarða króna til íbúða í bænum. Af þeim voru 42% lána til íbúða sem sjóðurinn eignaðist síðar á uppboði. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er meira og hlutfall örorkulífeyrisþega er hærra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu.