Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Helsta ógnin við íslenska tungu er tungusófinn

Mynd: RÚV / RÚV

Helsta ógnin við íslenska tungu er tungusófinn

04.01.2018 - 17:11

Höfundar

Hallgrímur Helgason hlaut í dag viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Hallgrímur velti fyrir sér stöðu bókmennta á Íslandi í dag í erindi sem hann flutti þegar hann veiti viðurkenningunni móttöku.

Hallgrímur velti upp spurningunni „hvað eru bókmenntir?“ þegar hann tók við viðurkenningunni. „Við megum ekki gera bókmenntirnar of hátíðlegar,“ sagði hann. „Ég meina, þær eru ekkert svo mikið merkilegra fyrirbæri en önnur. Þetta er bara svona fólk sem getur ekki sagt það sem það ætlaði að segja eða kemur því ekki fyrir í einu kommenti.“

Hann sagði að bókmenntirnar væru í sífelldri umbreytingu og hugsanlega þyrfti að endurskoða sögu þeirra. „Hvernig mun til dæmis #metoo byltingin leika bókmenntirnar. Þurfum við ekki að endurskoða söguna og spyrja spurninga? Hvernig stendur til dæmis á því að bæði Málfríður Einarsdóttir og Guðrún frá Lundi eru enn vanmetnar stærðir í íslenskum bókmenntum. Af hverju var Guðrún Helgadóttir fyrst núna að fá heiðurslaun? Fá kvenhöfundar sem vinna úr efni sögualdar öðruvísi viðtökur en karlar sem það gera? Og af hverju eru nýjar skáldsögur kvenna enn sagðar skvísubókmenntir – „chick lit“ – á meðan okkar bækur voru aldrei merktar „dick lit“?

Hallgrímur sneri sér að lokum að bókmenntaumhverfinu á Íslandi, sem honum finnst stundum vera að leysast upp. „Fyrir jólin gerðist nefnilega það sem maður hélt að aldrei myndi gerast hér á landi; að höfundar gáfu út skáldsögur án þess að fá um þær eina einustu umsögn. Hvorki í blöðum, útvarpi né sjónvarpi – ekki einu sinni á netinu. Ég veit að RÚV er að gera vel við okkur í dag, en ég verð samt að brýna fólk aðeins, því ef einhverjum ber skylda til að fjalla um nýjar bækur þá er það Rás 1. Ég meina, hér fá allar nýjar Netflix seríur sína umfjöllun – sem er vel – og reglulega er haldið upp á fertugsafmæli erlendra poppplatna en okkar þróttmikla eigin menning má þó ekki gleymast. Því eins og áramótaskaupið sýndi okkur þá er helsta ógnin við íslenska tungu tungusófinn.“

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins hefur verið starfræktur síðan 1956. Styrkir eru veittir einum eða tveimur höfundum. Í stjórn sjóðsins eiga sæti fimm menn, einn skipaður af menntamálaráðherra og er hann formaður, tveir af Ríkisútvarpinu og tveir af Rithöfundasambandi Íslands. Það eru þau Bergljót S. Kristjánsdóttir, formaður  nefndarinnar, skipuð af menntamálaráðherra, Eiríkur Guðmundsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir frá RÚV, Kristín Helga Gunnarsdóttir fyrir hönd Rithöfundasambands Íslands og Sölvi Björn Sigurðsson, verðlaunahafi síðasta árs.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hallgrímur fær viðurkenningu Rithöfundasjóðs

Bókmenntir

Skáld eru skilyrt til að yrkja um áföll

Bókmenntir

Hversdagsleg ljóðræna og erfitt uppgjör

Bókmenntir

Mikilvægt að „flaka“ ljóðin sem fyrst