Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Helsta áhættan tengd ferðaþjónustu og húsnæði

23.10.2018 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
„Í ljósi þess að áhætta í fjármálakerfinu er að aukast, óvissa er um hve hratt dregur úr spennu í þjóðarbúskapnum og að alþjóðleg fjármálaskilyrði gætu versnað er mikilvægt að fjármálafyrirtæki varðveiti viðnámsþrótt sinn þannig að þau hafi burði til að mæta áföllum,“ segir Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðar seðlabankastjóri, í formála að nýju fjármálastöðugleikariti bankans.

Í ritinu segir að áhættan í fjármálakerfinu sé enn hófleg en að hún hafi aukist. Helsta uppspretta áhættu tengist fasteignamarkaði og ferðaþjónustu. Hægt hefur á vexti ferðaþjónustunnar en áhætta byggst upp með miklum vexti greinarinnar á síðustu árum. Komi til bakslags í ferðaþjónustu mun það hafa áhrif á raunhagkerfið og viðskiptabankana.

Þá kemur fram að hækkun íbúðaverðs hefur nánast stöðvast og hefur það verið nokkuð stöðugt síðastliðið ár. Skuldir heimilanna hafa hins vegar vaxið hraðar en áður. Seðlabankinn segir að vöxturinn sé þó enn hóflegur miðað við aðrar hagstærðir og í heild sé staða heimilanna sterk. Bankinn vekur athygli á því að verð á atvinnuhúsnæði hefur hækkað hratt undanfarið og útlánavöxturinn til fyrirtækja hafi verið nokkur undanfarin misseri.

Í formála aðstoðarseðlabankastjóra kemur fram að útlán bankanna til ferðaþjónustu nemi um tíund af lánasafni þeirra. Ef samdráttur verði í tekjum af ferðaþjónstuu gætu bankarnir þurft að þola útlánatöp en það eitt og sér muni ekki tefla stöðu bankanna í tvísýnu. Verulegur samdráttur myndi hins vegar hafa áhrif á þjóðarbúið vegna áhrifa á gjaldeyristekjur og gengi krónunnar.

Þá kemur fram að útlán sem veitt hafa verið fasteigna- og byggingafyrirtækjum eru nú um fimmtungur útlána viðskiptabankanna þannig að verðlækkun atvinnuhúsnæðis í framtíðinni gæti haft áhrif á bankana.  

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV