Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Helmingur 18-29 ára hefur reykt kannabis

06.02.2017 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi þeirra sem hefur prófað kannabis hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 1997, samkvæmt upplýsingum Helga Gunnlaugssonar afbrotafræðings við Háskóla Íslands. Neyslan er langmest meðal ungs fólks og mest í hópnum 18-29 ára. Helgi segir að um helmingur þess hóps hafi einhvern tíma prófað kannabisefni.

Tölurnar hefur Helgi úr könnunum sem hann hefur gert í samstarfi við Félagsvísindastofnun háskólans. Hún tekur til þeirra sem eru á aldrinum 18-75 ára. 

Fyrir 20 árum sögðust 19% hafa prófað kannabisefni, 20% árið 2002, 25% árið 2013 og 30% árið 2015. Helgi fjallar um umfang kannabisneyslu á Íslandi á morgunverðarfundur á vegum samstarfshópsins Náum áttum á miðvikudagsmorguninn á Grand hóteli við Sigtún í Reykjavík. Helgi er jafnframt með nýja mælingu í undirbúningi. 

Fjöldi þeirra sem segist hafa notað kannabis tíu sinnum eða oftar hefur líka aukist úr 4% árið 1997 í 6% árið 2002. Átta prósent höfðu árið 2013  prófað efnið og tíu prósent í hitteðfyrra. Helgi telur að þetta sé hópur sem hafi notað efnið á einhverjum tímapunkti af og til.

Þá hefur verið spurt um hvort kannabis hafi verið notað á síðustu sex mánuðum fyrir mælinguna. Það fjölgar í þeim hópi úr rúmu einu prósenti árið 1997 í tæp fimm prósent árið 2015.

Neysla algengasta fíkniefnisins er því býsna algeng, segir Helgi. Hún einkennist mest af fikti, tilraunamennsku og félagsneyslu meðal yngra fólks. Neyslan sé yfirleitt tímabundin og hætti með hækkandi aldri. Þannig sé kannabisneysla meðal þeirra sem komnir eru yfir fertugt óveruleg.