
Helmingi vandans frestað til síðari tíma
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðhera, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, kynntu í gær þau skilyrði sem föllnu bankarnir þurfa að uppfylla til að fá að gera nauðasamninga og fá undanþágu frá gjaldeyrishöftum sem og þau efnahagslegu áhrif sem það mun hafa.
Sveinn Valfells, eðlis- og hagfræðingur, í Indefence hópnum, telur þvert á það sem kynnt var í gær, að vandinn sé að stórum hluta óleystur. Markmiðið hafi verið að koma í veg fyrir óæskileg áhrif þegar krónueignir föllnu bankanna færu úr landi við losun hafta. Þeim fyrirsjáanlega vanda hafi einungis verið frestað. „Vandinn er skilgreindur upp á 815 milljarða, hins vegar eru slitaframlögin ekki upp á nema 379 milljarða, eftir virðast standa 400 milljarðar af krónueignum sem kunna að fara úr landinu og hafa þannig neikvæð áhrif á íslensku krónuna og rýra kaupmátt á Íslandi og auka verðbólgu og þessi vandi hefur ekki verið leystur, honum virðist eingöngu hafa verið hliðrað fram í tímann.“
Gert er ráð fyrir að kröfuhafarnir fjármagni nýju bankana og fjárfesti með öðrum hætti til langs tíma hér á landi. Sveinn telur að með þessu fái áhættufjárfestar gömlu bankanna mikinn skattaafslátt fyrir að veita nýju bönkunum lán sem þeir gætu fengið annars staðar. Ljóst er, að mati Sveins, að stór hluti vandans er eftir: „Þetta er mjög stór hluti, 20% af landsframleiðslu, þetta er rúm milljón á mannsbarn á Íslandi, 4 milljónir eða meira á hverja fjölskyldu sem mun fara út og mun hafa neikvæð áhrif á gengi íslensku krónunnar. Mun auka verðbólguþrýsting innanlands. Það er bara spurning hvenær þessi áhrif koma fram ekki hvort.“