Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Helgi stoppar heiminn

Mynd: RÚV / RÚV

Helgi stoppar heiminn

28.10.2018 - 13:44

Höfundar

Þetta hefur verið tímamótaár fyrir Helga Björns. Hann varð sextugur, fyllti Laugardagshöll á afmælistónleikum og gaf út nýja plötu, Ég stoppa hnöttinn með puttanum. 

Á plötunni úir og grúir af ólíkum stílum. Helgi segir að sér hafi fundist viðeigandi í ljósi tímamótanna að blanda þeim saman. Það fari vel á því nú á dögum, þar sem smáskífur ráða ríkjum fremur en heildstæðar plötur.  

„Maður hefur séð stóra listamenn gera þetta undanfarið, Beyonce og fleiri. Stjörnur sem eru þekktar fyrir að gera kannski bara r&b tónlist eru allt í einu farnar að gera kántrí. Kannski tímanna tákn.“ 

Hættulegt að hafa plan b

Helgi hefur alltaf helgað sig listinni og segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun að hafa ekki annað starf í bakhöndinni. 

„Nei, og það var eiginlega ákvörðun sem ég tók strax því að hættan er sú þegar maður er nýútskrifaður úr einhverju listnámi þá reynir mikið á þig sjálfan og það er auðvelt á milli verkefna að fá sér aðra vinnu til að grípa í meðan hitt er ekki að ganga. En ég tók meðvitaða ákvörðun um að gera það ekki því það er svo hættulegt þegar maður er kominn í aðra vinnu og þá er hitt orðið aukaatriði. Maður lét sig bara hafa það að borða bara grænar baunir og komast af. Ég ætti að gera meira af því núna,“ segir hann og hlær. 

Sköpunin heldur áfram

Helgi býst við að halda listsköpun sinni áfram fram í rauðan dauðan.  

Það held ég að hljóti að vera. Á einn eða annan hátt. Það er þessi þrá sem hefur fylgt manni og þegar maður er kominn inn á þessa braut, fyrir hvern sem að þangað leggur þá er hann er ekki heill maður nema hann sé að fást við verkefni af einhverju tagi. Og ég vona að mér auðnist það.“ 

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Helga í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.