Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Helgi Hrafn oddviti Pírata í Reykjavík

30.09.2017 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Úrslit í prófkjöri Pírata fyrir þingkosningarnar 28. október í öllum kjördæmum nema Norðausturkjördæmi liggja fyrir. Helgi Hrafn Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir leiða lista flokksins í Reykjavík, Smári McCarthy verður oddviti í Suðurkjördæmi, Eva Pandora Baldursdóttir verður oddviti í Norðvesturkjördæmi og Jón Þór Sturluson leiðir lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður flokksins og fyrrverandi þingflokksformaður, bauð sig fram í Suðvesturkjördæmi eftir að hafa leitt flokkinn í Reykjavíkur suður  í síðustu kosningum. Hún hafnaði í þriðja sæti en sóttist eftir oddvitasætinu.

Ásta Guðrún hætti sem þingflokksformaður vegna ágreinings við meirihluta þingflokksins varðandi innra skipulag. Píratar fengu tvo þingmenn kjörna í Suðvesturkjördæmi.

Birgitta Jónsdóttir, núverandi þingflokksformaður, tilkynnti fyrir kosningarnar að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur.  

Píratar fengu tíu þingmenn í síðustu kosningum. Helgi Hrafn og Þórhildur Sunna verða oddvitar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og  þau Björn Leví Gunnarsson og Halldóra Mogensen verða í öðru sæti. Gunnar Hrafn Jónsson hafnaði í fimmta sæti og verður því í þriðja sæti í öðru hvoru kjördæmi Reykjavíkur.

Smári McCarthy leiðir lista flokksins í Suðurkjördæmi en í öðru sæti varð Álfheiður Eymarsdóttir.  Eva Pandora Baldursdóttir leiðir lista flokksins í Norðvesturkjördæmi en í öðru sæti varð Gunnar Ingiberg Guðmundsson.

Jón Þór Ólafsson verður oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi. Oktavía Hrund Jónsdóttir verður í öðru sæti. 

Frekari úrslit er hægt að lesa á vef Pírata 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV