Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Helgaruppskriftin: Kókos- og karrísúpa GDRN

Mynd: Youtube / Youtube

Helgaruppskriftin: Kókos- og karrísúpa GDRN

30.09.2018 - 13:44

Höfundar

Tónlistarkonan Guðrún Ýr eða GDRN hefur heillað landsmenn með sinni silkimjúku og sefandi r'n'b-tónlist undanfarið en hún gaf út sína fyrstu plötu fyrr í haust sem fengið hefur lofsamlegar viðtökur. Nú gleður hún okkur með ilmandi haustsúpu.

GDRN var fyrsti gestur í nýjum dagskrárlið í Síðdegisútvarpi Rásar 2, Helgaruppskriftinni og hnýttu þau Hafdís Helga og Andri Freyr á sig svunturnar og fylgdust grannt með færni GDRN í eldhúsinu. Kókos- og karrísúpan er í miklu uppáhaldi hjá Guðrúnu Ýri og segir hana oft verða fyrir valinu en þó í mismunandi útfærslum. Það er nefnilega ákveðið frelsi falið í súpunni og því má bæta við ýmsu úr ísskápnum til að stuðla að minni matarsóun. Guðrún segist hafa fengið sína fyrstu eiginlegu eldhúsreynslu þegar hún vann á hinum fornfræga veitinga- og ferðamannastað Eden í Hveragerði.

Tónlistarkonan GDRN deildi með hlustendum Síðdegisútvarpsins uppskrift að kókos- og karrísúpu.
 Mynd: GDRN
GDRN eða Guðrún Ýr býður upp á kókos- og karrísúpu.

„Eden var svona þrískipt; ísbúð, marengsbotnasala og svo kjúklingur og franskar. Svo var líka túristabúðin sem bauð upp á alls konar varning. Ég var rosalega góð í ísnum, náði upp færni í því að setja ísinn ofan í dýfuna. Þetta er eins konar jafnvægisæfing að ná ísnum aftur úr sósunni án þess að hann brotni. Ég er ekkert rosalega góð í bakstri, það hvílir á mér einhver bökunarbölvun. Ég man að það var sama hvað ég gerði í heimilisfræði, ég lagði svo mikinn metnað í allt og varð því sífellt fyrir vonbrigðum. Bakaði kökur og þær féllu allar saman, gerði bleikt krem og það varð ógeðslega fjólublátt. Ég er ögn betri í því að elda og kem því ekki með bökunaruppskrift í dag,“ segir Guðrún.

Kókos- og karrísúpa GDRN
 

Tófú í pakka, skorið í teninga (kjúklingur er einnig tilvalinn fyrir þá sem borða kjöt)
1 rauðlaukur og/eða vorlaukur
4-5 sveppir
1 rauð paprika

Allt er þetta steikt saman á pönnu í olíu. Bæta má við eftir eigin smekk öðru grænmeti, eins og sætum kartöflum, gulrótum eða öðru sem til er í ísskápnum.

3 msk. rautt karrýmauk (frá Blue dragon)
1/2 lítri af vatni (sniðugt að hita vatnið áður í katli svo að suðan haldi)
grænmetiskraftur (eða kjúklingakraftur ef kjúklingur er í súpunni)
tvær dósir (ein dós er um 800 ml) af kókosmjólk (frá Blue dragon)
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar eftir smekk

Súpan er látin malla á lágum hita í góðan tíma, hún á það til að verða enn betri daginn eftir, ef hún klárast ekki strax, líkt og með aðrar góðar súpur.

Síðdegisútvarpið mælir sérstaklega með seiðandi tónlist GDRN á meðan ilmandi kókos- og karrísúpan er elduð og einnig framreidd.

Hlusta má á Helgaruppskrift Síðdegisútvarps Rásar 2 með því að smella á myndina efst.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Krafa á tónlistarkonur að vera kynbombur

Popptónlist

Valdeflandi og vel svalt