Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Helgaruppskriftin: Helgi kryddar heiminn

Mynd: Helgi Svavar / Helgi Svavar

Helgaruppskriftin: Helgi kryddar heiminn

08.11.2018 - 14:21

Höfundar

Siglfirski sælkerinn og slagverksleikarinn Helgi Svavar Helgason deilir með okkur uppskrift að sterkri sósu sem hann segir gera allan mat betri og að allir geti prófað að laga sósuna til heima.

Helgi Svavar Helgason er trommari að upplagi og landsþekktur sem slíkur, hann hefur spilað með hljómsveitum á borð við Hjálma, Baggalút, Flís og Memfismafíuna en hann er einnig mikill matgæðingur og sælkeri. Helgi var tvístígandi um hvað hann ætti að bjóða upp á en sterk chilisósa varð fyrir valinu. „Sterkt er betra. Alltaf. Nema reyndar er sterk sósa og kaffi ekki góð samsetning. Flest annað,“ segir Helgi Svavar.

Helga Svavari datt tvennt í hug til að deila með hlustendum; annars vegar sterku chilisósunni eða hins vegar vangaveltum sínum um hvort hægt sé að nota líkamann til að elda. „Hvort það sé hægt að að skera þunnar sneiðar af kjöti, pakka þeim inn á sig og fara í fjallgöngu? Svona eins konar sous-vide. Eða þá að taka með þunnar rib-eye sneiðar í hot-yoga?“ spyr Helgi sig en blessunarlega býður hann okkur frekar upp á uppskriftina að sterku chilisósunni.

Heit chilisósa sem gerir allt betra

Slatti af chili (t.d. jalapeno, Thai Chili, habanero)
Saltlögur: 200 ml. vatn á móti 4gr. salti (margfaldist eftir þörfum)
4 hvítlauksrif
Hrein glerkrukka
Hreinn klútur eða plastfilma
Teygja

Þvoið chilipiparinn og setjið í krukkuna ásamt hvítlauk (fyllið).
Hellið saltblöndu í krukkuna og látið fljóta yfir chilipiparinn (gott er að leggja hálfan lauk ofan á chilipiparinn til að halda honum undir yfirborði).
Lokið krukkunni með plastfilmu eða klút með teygju.
Bíðið í minnst eina viku og allt að 12 vikum.

Hellið vökva í skál.
Hellið chilligumsi í matvinnsluvél.
Hakkið.
Þynnið blönduna eftir smekk með vökvanum.

Njótið á eigin ábyrgð.