Helgaruppskriftin: Djúpsteikt frá Dóra DNA

Mynd: NR / RÚV

Helgaruppskriftin: Djúpsteikt frá Dóra DNA

08.10.2018 - 16:00

Höfundar

Matgæðingurinn, uppistandarinn og boxarinn Dóri DNA mætti í Síðdegisútvarp Rásar 2 á föstudag og deildi einni eftirlætisuppskrift, að djúpsteiktum bragðsterkum kjúklingi að hætti Nashville búa.

Matgæðingurinn, uppistandarinn og boxarinn Dóri DNA mætti í Síðdegisútvarp Rásar 2 á föstudag og deildi einni eftirlætisuppskrift, að djúpsteiktum bragðsterkum kjúklingi að hætti Nashville búa.

Hann leggur heilan kjúkling í verkið og hlutar hann í átta bita.  Dóri segir að mörg lítil leyndarmál séu á leiðinni að því að búa til góðan djúpsteikan kjúkling. „Þú ert að brenna þig stöðugt á þessu,“ segir hann og nefnir sem dæmi að best sé að marinera kjúklinginn áður en haldið sé af stað í steikinguna.

Marinering

„Marineringin þarf ekki að vera flókin,“ bætir hann við og stingur upp á því að setja kjúkling í skál, hella hálfum bolla af vatni yfir hann og setja síðan „season all“-krydd yfir hann. Láta það standa tvo til þrjá klukkutíma inni í ísskáp. „Þetta hefur þau áhrif að hann verður meyrari af því að kryddið og einhver djöfulgangur byrjar að vinna á kjötinu.“

Hjúpur

Varðandi hjúpinn segir Dóri að best sé að hafa fjórar skálar til reiðu. Í fyrstu skálinni er kjúklingurinn, þerraður en ekki skolaður. Í næstu skál er eingöngu hveiti. Í þriðju skálinni er sérleg deigblanda og í hinni fjórðu er kryddhveiti. Kjúklingnum er velt upp úr innihaldinu í hverri skál í þeirri röð sem getið er hér að ofan.

Deigblanda:

3 egg
1 bolli hveiti
1 msk kryddsalt
1 msk laukduft
1 dós af sódavatni

Kryddhveitiblanda:

2 bollar hveiti
1 msk kryddhveiti
2 msk cayenne pipar
2 msk chili duft
2 msk paprika
2 msk kryddsalt

Dóri segist nota venjulega grænmetisolíu við djúpsteikinguna. Hann leggur áherslu á að olían sé ekki of heit. „Olíuna setjið bara í venjulegan pott. Mér finnst gott að setja matprjón ofan í hana og þegar fer að bubbla upp svona samhliða honum, þá lækkarðu niður í helming.“ Hann segir að ef olían sé of heit verði húðin á kjúklingnum „pörfekt“ en kjúklingurinn eldist ekki í gegn. „Þú vilt hafa hann þarna oní í svona fimmtán til átján mínútur,“ segir hann og bætir við að þörf sé á tveimur umgöngum í steikingunni fyrst að um átta bita sé að ræða.

Heit smjörsósa:

1 bolli smjör
1 tsk af chilipipar
1 msk cayenne pipar
2 msk chili duft
1 msk laukduft
Arða af oregano
½ msk púðursykur
½  bolli "hot sauce"
Salt og Pipar

Blandan er látin malla í góða stund. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er þunnu lagi af smjörsósunni penslað á kjúklinginn „til að dekkja hann“ og að lokum er hann borinn fram með súrum gúrkusneiðum ofan á.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Helgaruppskriftin: Kókos- og karrísúpa GDRN