Helgaruppskriftin: Berglind með ramen-festival

Mynd: Berglind Pétursdóttir / Berglind Pétursdóttir

Helgaruppskriftin: Berglind með ramen-festival

21.10.2018 - 14:44

Höfundar

Dansarinn og dagskrárgerðarkonan Berglind Pétursdóttir eða Berglind Festival eins og margir þekkja hana, á helgaruppskriftina að þessu sinni. Hún býður upp á ilmandi japanska ramensúpu sem mótvægi gegn haustlægðunum.

Berglind leggur áherslu á það að hér verði ekki boðið uppá neina mauksúpu heldur alvöru ramensúpu, ekta núðlusúpu beint frá Japan. Lykilatriðið er að gefa sér tíma og nostra við súpuna og segir Berglind að ef hún eigi nóg af einhverju, þá er það einmitt tími. Þess vegna er æskilegt að byrja á undirbúningnum daginn áður en súpan verður á boðstólum. 

„Þá undirbúum við eggið sem við ætlum að hafa í súpunni. Ástæðan fyrir því er að aðalatriðið við góða ramensúpu er marínerað egg. Ef þú kýst að gera grænmetisútgáfu af súpunni þá er sniðugt að setja einn niðurskorinn portobellosvepp og setja með í löginn fyrir nóttina,“ segir Berglind sem ætlar að hafa svínakjöt í sinni súpu.

Marinering

„Við byrjum á því að taka sirka 3 cm af engiferrót og söxum eins smátt og við getum. Sömuleiðis einn hvítlauksgeira og söxum hann líka eins smátt og við getum. Setjum þetta svo saman við sojasósu og sake og í skál. Að því loknu bætum við hálfum lítra að vatni við,“ segir Berglind og vill meina að margir vilja sleppa engiferrótinni í leginum en ítrekar að hún sé góð til þess að ráðast að hálsbólgunni sem herjar á landsmenn með haustinu. 

Þá er eggið soðið í nákvæmlega 5 og 1/2 mínútu og að því loknu sett beint í ísvatn. Þegar eggið er orðið kalt, er skurnin fjarlægð og egginu bætt í löginn. Loks er svo lögurinn, eða marineringin, sett inn í ísskáp yfir nóttina.

Kjötmetið

Berglind bendir á það góða ráð að þegar unnið er við marineringuna þá er gott í framhjáhlaupi að huga að kjötinu (eða grænmetinu). „Við notum grísasíðu, nuddum hana með púðursykri, sojasósu og salti. Nuddum þetta vel inn í kjötið, puruna og látum þetta svo liggja inn í ísskáp yfir nóttina. Þegar þessu er lokið þá förum við beint að sofa,“ segir Berglind og það má sjá að hún tekur þessa súpumatreiðslu mjög alvarlega. Hún bendir í framhaldi á það að þegar við vöknum daginn eftir, þá sé mikilvægt að fara í vinnuna (eða sinna öðrum hugðarefnum) en koma svo heim snemma og byrja á soðinu fyrir súpuna. 

Berglind Pétursdóttir býður upp á helgaruppskriftina í Síðdegisútvarpinu.
 Mynd: Berglind Pétursdóttir
Berglind er mikill unnandi japanskrar matargerðar.

Soðið og maukað

Eitt grænt epli er saxað eins smátt og hægt er. Sérstaklega er tekið fram hversu mikilvægt er að vera lunkinn með hnífinn eða hafa einhvern góðan með sér í niðurskurðinn. „Þetta þarf allt að vera frekar smátt niðurskorið fyrir súpuna. Svo tökum við einn lauk, söxum hann eins og smátt og við getum. Þá fjögur rif af hvítlauk sem við, jú ... söxum smátt eða pressum. Allt fer þetta á pönnu og við maukum þetta í svona 45 mínútur, allt á lágum hita, þar sem þetta má ekki brenna. Á meðan þetta er að krauma þá býrðu til soðið, það má vera kjúklinga- eða grænmetisteningur en svo er líka hægt að kaupa ramen-tening, hann er rosalega góður. Við setjum tvo lítra af vatni í pott, tvo teninga út í ( einn teningur á móti einum lítra) og náum upp góðri suðu. Út í maukið getum við sett ýmsar sósur, mögulega asískar sósur. Sumir vilja sterkt og aðrir ekki. Fiskisósa, sojasósa, tamarisósa, það þarf bara eins og eina teskeið eða matskeið, þetta getur gert allskonar góða hluti en bara ekki setja of mikið. Um að gera að setja eina skeið í einu og prófa sig áfram.“ segir Berglind.

Lokaskrefið

Nú er maukinu blandað við soðið og þá er nú kominn grunnurinn að súpunni. Púðursykurinn er hreinsaður af kjötinu, það sett undir álpappír og hitað í ofni í um 4 klukkutíma á 150° hita (fer eftir magninu af kjöti). Það eru vitaskuld til margar núðlutegundir en Berglind bendir sérstaklega á ramennúðlur. Þær eru aðeins öðruvísi en aðrar og best er að sjóða þær uppúr vatni með teningi út í, til að bragðbæta þær. „Þegar búið er að sjóða núðlurnar setur þú þær í skál, skerð niður svínasíðuna í þunnar sneiðar og raðar fallega á núðlurnar og hellir svo soði yfir. Einhverjir vilja meina að gott sé að hella smá soði af kjötinu fyrst í skálina á undan núðlunum en ég gleymdi því núna. Þá er að skreyta, ég nota graslauk, kóríander, baunaspírur og salthnetur sem þú saxar agnarsmátt. Þetta er allt sett ofan á súpuna og gerir hana svo góða og lætur hana lúkka,” segir Berglind og rekur endapunktinn með því að sækja loks eggið úr leginum, sker það í tvennt og leggur ofan á.

En hvar lærði Berglind svo þessa japönsku matargerðarlist? „Sko, ég hef verið mikið í Japan ... eða réttara sagt þá hef ég einu sinni komið til Japan og mig langar svo að segja að ég hafi lært að gera súpuna þar en þetta er sko bara uppskrift frá Jamie Oliver. Þetta er nefnilega uppáhalds ramensúpan hans Josh Hartnett.

Hér er svo helstu hráefnin í alræmdri uppskrift Jamie Oliver sem er í miklu uppáhaldi hjá ameríska leikaranum Josh Hartnett og Berglindi Festival:

1 x egg
1 pk ramen núðlur, eða 450g af núðlum að eigin vali

750 g svínakjöt, svínasíða
10 g  salt
20 g púðursykur
30 ml sojasósa

1 laukur
4 hvítlauksrif
3 cm engiferrót
1 epli, grænt

75 ml sake
75 ml kraftur
100 ml sojasósa

2 ramen-teningar 
eða annars konar kraftur

Til skrauts;
vorlaukar
rauður chilii
kóríander
baunaspírur

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Helgaruppskriftin: Djúpsteikt frá Dóra DNA

Tónlist

Helgaruppskriftin: Kókos- og karrísúpa GDRN