Berglind leggur áherslu á það að hér verði ekki boðið uppá neina mauksúpu heldur alvöru ramensúpu, ekta núðlusúpu beint frá Japan. Lykilatriðið er að gefa sér tíma og nostra við súpuna og segir Berglind að ef hún eigi nóg af einhverju, þá er það einmitt tími. Þess vegna er æskilegt að byrja á undirbúningnum daginn áður en súpan verður á boðstólum.
„Þá undirbúum við eggið sem við ætlum að hafa í súpunni. Ástæðan fyrir því er að aðalatriðið við góða ramensúpu er marínerað egg. Ef þú kýst að gera grænmetisútgáfu af súpunni þá er sniðugt að setja einn niðurskorinn portobellosvepp og setja með í löginn fyrir nóttina,“ segir Berglind sem ætlar að hafa svínakjöt í sinni súpu.
Marinering
„Við byrjum á því að taka sirka 3 cm af engiferrót og söxum eins smátt og við getum. Sömuleiðis einn hvítlauksgeira og söxum hann líka eins smátt og við getum. Setjum þetta svo saman við sojasósu og sake og í skál. Að því loknu bætum við hálfum lítra að vatni við,“ segir Berglind og vill meina að margir vilja sleppa engiferrótinni í leginum en ítrekar að hún sé góð til þess að ráðast að hálsbólgunni sem herjar á landsmenn með haustinu.
Þá er eggið soðið í nákvæmlega 5 og 1/2 mínútu og að því loknu sett beint í ísvatn. Þegar eggið er orðið kalt, er skurnin fjarlægð og egginu bætt í löginn. Loks er svo lögurinn, eða marineringin, sett inn í ísskáp yfir nóttina.
Kjötmetið
Berglind bendir á það góða ráð að þegar unnið er við marineringuna þá er gott í framhjáhlaupi að huga að kjötinu (eða grænmetinu). „Við notum grísasíðu, nuddum hana með púðursykri, sojasósu og salti. Nuddum þetta vel inn í kjötið, puruna og látum þetta svo liggja inn í ísskáp yfir nóttina. Þegar þessu er lokið þá förum við beint að sofa,“ segir Berglind og það má sjá að hún tekur þessa súpumatreiðslu mjög alvarlega. Hún bendir í framhaldi á það að þegar við vöknum daginn eftir, þá sé mikilvægt að fara í vinnuna (eða sinna öðrum hugðarefnum) en koma svo heim snemma og byrja á soðinu fyrir súpuna.