Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Helgafellssveit

14.05.2014 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Í Helgafellssveit bjuggu 53 þann 1. janúar 2014. Sveitarfélagið er annað af fámennustu sveitarfélögum landsins. Þar verður óhlutbundin kosning í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Í síðustu kosningum var einnig óhlutbundin kosning. Þá eru persónukosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð. Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem eru löglega undanþegnir skyldu til að taka kjöri eða hafa fyrirfram skorast undan því. Alls voru 49 á kjörskrá, atkvæði greiddu 44. Oddviti hreppsnefndar er Egill V. Benediktsson.

Í Helgafellssveit er innheimt hámarksútsvar. Skatttekjur á hvern íbúa árið 2012 námu 479.621 krónum, þegar framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er talið með, sem er nokkru yfir landsmeðaltali. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið fái rúmlega 7 milljón króna í framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári. Skuldir sveitarfélagsins í árslok 2012 námu 38,4 % af árstekjum. Samkvæmt samantekt Íslandsbanka frá því í febrúar 2013 var Helgafellssveit eitt þeirra sveitarfélaga sem skuldar lítið en rekstur stendur samt ekki undir skuldsetningu að öllu jöfnu, miðað við gefnar forsendur. Þær upplýsingar voru unnar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2011.