Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Helga Jónsdóttir tekur við sem forstjóri OR

19.09.2018 - 21:36
Helga Jónsdóttir
 Mynd: Orkuveita Reykjavíkur
Stjórn Orkuveitunnar ákvað á fundi, sem lauk nú fyrir stundu, að fallast á ósk Bjarna Bjarnasonar, fyrrverandi forstjóra, að stíga til hliðar á meðan fram fer óháð úttekt á vinnustaðarmenningu og málefnum tiltekinna starfsmanna. Helga Jónsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður hjá eftirlitsstofnun EFTA, tekur við sem forstjóri Orkuveitunnar til tveggja mánaða. Stjórnin var samhljóða um ráðninguna.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni kemur fram að einnig hafi verið ákveðið að ráðast í óháða úttekt á vinnustaðarmenningu hjá OR og tilteknum starfsmannamálum sem hafa verið til umræðu. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar mun vinna úttektina með utanaðkomandi sérfræðingum á þessu sviði. Stjórnarformanni var falið að ganga frá endanlegu samkomulagi þar um. Úttektin verður tvíþætt, annars vegar á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins og hins vegar á þeim starfsmannamálum sem verið hafa í umræðu nýverið. Niðurstöður eiga að liggja fyrir innan tveggja mánaða. 

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR, segist þakklát stjórninni fyrir að taka skjótt og með afgerandi hætti á þeim erfiðu verkefnum sem við blasa og Bjarna Bjarnasyni fyrir að skapa svigrúm fyrir þá nauðsynlegu vinnu sem nú er framundan. 

„Við erum að glíma við vanda sem finnst víða – áreitni á vinnustöðum. Nú tel ég að forsendur hafi skapast fyrir því hér hjá Orkuveitu Reykjavíkur að trúverðug og óháð úttekt verði gerð. Þannig geti starfsmenn fyrirtækisins og eigendur þess treyst því að staða mála hjá OR verði skýrð og öll tækifæri til úrbóta nýtt, “ segir Brynhildur.

Bjarni Bjarnason sendi fjölmiðlum tilkynningu á mánudag þess efnis að hann hefði óskað eftir því að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri á meðan þau mál sem komið hafa upp verða skoðuð og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins. 

Ákvörðun þessa tók hann í kjölfar þess að Bjarna Má Júlíussyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, var vikið frá störfum í vegna óviðeigandi framkomu hans gagnvart samstarfsfólki sínu. Orkuveitan staðfesti síðar að ástæða uppsagnarinnar hafi verið tölvupóstar sem Bjarni Már sendi á kvenkyns undirmenn sína. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV