Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Heldur meiri kjörsókn en 2014

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjörsókn utan kjörfundar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu eru heldur meiri nú en á sama tíma fyrir fjórum árum. Sviðsstjóri hjá sýslumanni segir framkvæmdina hafa gengið vel.

Kosning utan kjörfundar hefur staðið yfir hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu frá þrítugasta og fyrsta mars. Hún fer fram í Smáralind og er það í annað sinn sem atkvæðagreiðslan er þar - fyrsta gerðist það fyrir alþingiskosningarnar í fyrra. 

Bergþóra Sigmundsdóttir sviðsstjóri þinglýsinga- og leyfasviðs hjá sýslumanni segir að almennt sé kjörsókn minni í sveitarstjórnarkosningum en í alþingis- og forsetakosningum. Sú er líka raunin nú, en þó beri að geta þess að kjósendum hafi líka fjölgað. „Það eru 5.380 sem voru búnir að kjósa í gær á móti 4.665 árið 2014. Það er kannski aðeins meiri aukning hlutfallslega en fyrir fjórum árum.“

Til samanburðar voru tæplega 11.400 búnir að kjósa á þessum tíma í síðustu forsetakosningum, en þar hefur árstíminn sitt að segja þar sem kosið er að sumri. Þá höfðu rúmlega 9.800 kosið á sama tíma í síðustu alþingiskosningum. Bergþóra bendir jafnframt á að þeir íslensku ríkisborgarar sem hafa búið erlendis í ákveðinn tíma hafa ekki kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum.+

Hún segir atkvæðagreiðsluna hafa gengið vel, þó að það hafi valdið sumu fólki smá vandræðum að hún sé í Smáralind. Smáralindin valdi sumum smá erfiðleikum. „Sumt eldra fólk sérstaklega hefur átt erfitt með að rata inn á okkur. En við erum með auglýsingar og skilti við hvern innganga þar sem kemur fram hvað er hvar, og það er getið um það líka.“

Bergþóra segir fólk almennt ánægt með að atkvæðagreiðslan sé í Smáralind. „Þetta er að mati sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu miðjan og við höfum litið á það þannig. Við erum líka að reyna að vera með gott aðgengi þannig að það sé auðvelt fyrir þá sem eiga erfitt með að komast leiðar sinnar að koma inn til okkar.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV