Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heldur ágóðanum – fátt um svör hjá saksóknara

18.12.2018 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Kikkó - RÚV
Júlíus Vífill Ingvarsson þarf ekki að endurgreiða tugmilljóna ávinning af skattsvikum sínum, sem framin voru fyrir þremur áratugum, þrátt fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í dag fundið hann sekan um peningaþvætti og dæmt hann í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi. Saksóknari gerði ekki kröfu um upptöku fjárins þótt slíkt sé heimilt.

Saksóknari mat ávinninginn af brotum Júlíusar á 49 til 57 milljónir. Það er upphæðin sem hann er dæmdur fyrir að þvætta með því að flytja þá til á milli erlendra bankareikninga sinna.

Á þessu ári hafa tveir aðrir dómar fallið þar sem eingöngu var sakfellt fyrir peningaþvætti. Í því fyrra voru samtals 22 milljónir gerðar upptækar í ríkissjóð. Í því síðara, sem dæmt var í fyrir rúmum þremur vikum, var bankainnistæða upp á rúma tvær og hálfa milljón gerð upptæk, sem og Tesla-bifreið.

Í máli Júlíusar gerði saksóknari hins vegar ekki kröfu um upptöku fjárins. Spurður hvers vegna er fátt um svör hjá saksóknaranum Birni. „Eins og þetta mál var rannsakað þá var það bara ekki gert,“ segir hann og bendir á að málið hafi um margt verið sérstakt.

Mynd með færslu
 Mynd:
Björn Þorvaldsson saksóknari.

Björn segir að til þess að hægt sé að krefjast upptöku á fjármunum í sakamáli þurfi þeir fyrst að hafa verið kyrrsettir við rannsókn málsins. Svo hafi hins vegar ekki verið. Spurður af hverju það var ekki gert segist Björn ekki geta skýrt það.

Var það vegna þess hvar þeir voru geymdir og að þeir voru illínáanlegir?
„Það var bara ekki gert. Ég hef engar frekari skýringar á því,“ segir Björn og bætir við að ekki sé þar með sagt að það sama muni gilda í öðrum peningaþvættismálum í framtíðinni.

Stuttur dómur – skýr niðurstaða

Dómur héraðsdóms, sem hefur nú verið birtur á vef dómstólanna, er stuttur sé miðað við flesta dóma í fjármunabrotamálum – ekki nema tvær og hálf útprentuð blaðsíða.

Í honum segir að það sé ágreiningslaust í málinu að Júlíus hafi átt fjármuni á reikningi í bankanum UBS á Jersey sem síðar voru færðir inn á reikning Panamafélagsins Silwood Foundation hjá bankanum Julius Bär í Sviss. Hann hafi viðurkennt að þetta væru umboðslaun sem hann hefði þegið í rekstri bílaumboðsins Ingvars Helgasonar á níunda áratugnum og fram á þann tíunda, „til hliðar“ við viðskiptasamninga, og að hann hafi ekki greitt af þeim skatt.

„Ákærða bar að telja þessa fjármuni fram til skatts og greiða af þeim skatta samkvæmt gildandi skattalögum á hverjum tíma. Þetta gerði hann ekki og er þar af leiðandi hluti fjármunanna ávinningur af broti hans á skattalögum. Meðhöndlun ákærða á þessum fjármunum, eins og henni er lýst í ákærunni, var honum því refsiverð samkvæmt [peningaþvættisákvæði] almennra hegningarlaga,“ segir í dómnum.

„Ekki er ástæða til að draga í efa framburð ákærða um að nú sé langt síðan hann braut gegn skattalögum. Á þeim tíma sem liðinn er hefur hann hins vegar geymt nefnda fjármuni á bankareikningum og flutt þá á milli reikninga. Síðast gerði hann þetta á árinu 2014, eins og greinir í ákæru og ákærði hefur kannast við. Samkvæmt þessu er brot ákærða ófyrnt og hafnar dómurinn því að sýkna hann vegna fyrningar,“ segir enn fremur í dómnum, sem Arngrímur Ísberg kvað upp.

Dómnum áfrýjað

Júlíus Vífill hefur ákveðið að áfrýja niðurstöðunni. Hörður Felix Harðarson, lögmaður Júlíusar Vífils, staðfestir þetta við fréttastofu og segir margar ástæður leiða til þessarar niðurstöðu. „Þetta var auðveld ákvörðun,“ sagði Hörður.