Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Heitar umræður um vindorkuver á íbúafundi

01.02.2018 - 00:17
Vindmylla í nærmynd.
 Mynd: Jay Simmons - RGBStock
Heitar umræður sköpuðust á íbúafundi í Dalabyggð í kvöld þar sem hugmyndir um vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða voru meðal annars til umræðu. Fyrirtækið Storm Orka áformar að reisa stærðarinnar vindorkuver með 40 vindmyllum á 600 hektara landi. Gagnrýnt hefur verið að sveitarstjórn hafi undirritað viljayfirlýsingu við fyrirtækið áður en íbúum voru kynntar hugmyndirnar og áður en málið fór sína leið í stjórnsýslu bæjarins.

Sigurður Sigurbjörnsson hefur gagnrýnt hugmyndirnar og skort á upplýsingum frá sveitarfélaginu á vefsíðunni hagsmunir.is sem tileinkuð er málinu. Hann segir heitar umræður hafa verið á fundinum, sem lauk um klukkan ellefu í kvöld. „Já, á köflum voru þær það, en allir málefnalegir.“

Sigurður segir fundinn aðallega hafa snúist um að hann og aðrir sem eiga hagsmuna að gæta á jörðunum í grennd hafi komið að sínum athugasemdum.

„Þannig að við beindum bara okkar spurningum og áhyggjum til sveitarstjórnar og fengum í rauninni ekkert mikið meiri svör en við þegar vissum því að sveitarstjórnin virðist ekki vita mjög mikið um málið og á greinilega eftir að afla sér mikilla upplýsinga um það,“ segir Sigurður.

Málið á byrjunarstigi, segir sveitarstjóri

Sveinn Pálsson sveitarstjóri segir að fundurinn hafi verið ágætur. „Og ég vona nú að fundarmenn hafi áttað sig á því að verkefnið er nú skemur komið en má skilja á sumum fréttaveitum og er náttúrulega bara á byrjunarstigi.“

Sveinn segir að óánægjuraddir hafi verið háværar á fundinum. „Það er nú náttúrulega alltaf þannig að þeir sem hafa eitthvað við vinnubrögð sveitarstjórnar að athuga hafa sig meira í frammi en hinir sem eru ánægðir, þótt það heyrist nú raddir sem betur fer úr báðum áttum.“

„Söluræða“ Storm Orku styrkti afstöðu anstæðinga

Sigurður segir að forsvarsmenn Storm Orku hafi haldið eins konar söluræðu á fundinum og hún hafi ekki breytt skoðun hans á málinu.

„Nei, síður en svo. Hún styrkti bara frekar mína og okkar afstöðu í þessu máli. Og við hvöttum sveitarstjórnina bara til að setja málið á ís, því að það eru engar reglur eða lög komin um svona vindorku eða vindorkuver á landinu.“

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir