Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Heita móttökustöðvum fyrir 100.000 manns

26.10.2015 - 01:41
epa04996287 (L-R) German Chancellor Angela Merkel, European Commission President Jean-Claude Juncker and High Commissioner for Refugees, Portuguese, Antonio Guterres give a final press briefing at the end of a summit to discuss refugee flows along the
Angela Merkel, Þýskalandskanslari, Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Antonio Guterres, forstjóri Flóttamannahjálpar SÞ, á fréttamannafundi að loknum fundinum í Brussel. Mynd: EPA
Komið verður upp nýjum móttökustöðvum fyrir minnst 100.000 flóttamenn, samkvæmt samkomulagi sem náðist á neyðarfundi 11 Evrópuríkja í Brussel í kvöld. Leiðtogar átta Evrópusambandsríkja og þriggja Balkanlanda utan sambandsins komu þar saman til að ráða ráðum sínum um straum flóttafólks til áfunnar.

Sjónum var sérstaklega beint að einni fjölförnustu leið flóttafólks um þessar mundir, sem liggur frá Grikklandi og norður eftir nokkrum Balkanríkjum. Auk þjóðarleiðtoganna sátu forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, forsetar Evrópuþingsins og Leiðtogaráðs Evrópusambandsins og forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fundinn.

Samkvæmt samkomulaginu munu Grikkir opna móttökustöðvar fyrir minnst 30.000 flóttamenn áður en árið er úti. Á sama tíma mun Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna reisa móttökustöðvar fyrir 20.000 til viðbótar í Grikklandi. Þá mun flóttamannahjálpin koma á fót slíkum miðstöðvum í Balkanlöndunum, fyrir allt að 50.000 manns, en stór hluti flóttafólks ferðast til Evrópu í gegnum þau.

Einnig lofuðu Evrópusambandsríkin að senda 400 lögreglumenn til Slóveníu á næstu dögum, en þarlend yfirvöld hafa átt afar erfitt með að sinna öllum þeim fjölda flóttafólks sem til landsins kemur þessa dagana. Þá er kveðið á um að fremur skuli letja flóttafólk en hvetja til að halda för sinni áfram að landamærum næsta ríkis, án samráðs við viðkomandi ríki. Heitið er auknu samráði og upplýsingamiðlun landa á milli, eflingu landamæraeftirlitsstofnunar Evrópu, Frontex, og stórátaki í að skrá flóttafólk með traustum hætti svo eitthvað sé nefnt. 

Löndin sem aðild eiga að samkomulaginu eru Evrópusambandsríkin Austurríki, Búlgaría, Grikkland, Króatía, Rúmenía, Slóvenía, Ungverjaland og Þýskaland, og Balkanríkin Albanía, Makedónía og Serbía. Lesa má samkomulagið í heild sinni, á ensku, hér

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV